Innlent

Ekkert formlegt eftirlit verður með afnámi vörugjalda

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stjórnvöld ætla ekki að hafa sérstakt eftirlit með því afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts skili sér til neytenda. Ólöf Nordal, ráðherra neytendamála, segir að markaðurinn muni sjá um að veita fyrirtækjum aðhald. 

Almenn vörugjöld og sykurskattur voru afnumin um áramótin og efra þrep virðisaukaskatts lækkað úr 25,5% í 24%. Gert er ráð fyrir að breytingarnar skili sér flestar strax í breyttu verðlagi, sem mikið hagsmunamál fyrir neytendur.

Jóhannes Magnússon, formaður Neytendasamtakanna, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að stjórnvöld hefðu átt að skipuleggja eftirlit með verðlagi raftækja fyrir áramót, eða áður en að vörugjöldin voru afnumin.  Mjög erfitt sé að halda utan um hvort afnámið fari til neytenda eða hvort verlsanir notfæri sér skattkerfisbreytingar til að hækka sína álagningu.  

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, er því ósammála og segir ekki tilefni til að hafa formlegt eftirlit með hækkuninni. 

„Þetta er fyrst og fremst mál okkar alla neytenda í landinu, að fylgjast með vöruverði, og hagsmunaaðila líka. Mín skoðun er sú að neytendur muni sjá um að veita fyrirtækjum aðhald í þessu. Ég er ekki talsmaður þess að vera með opinbert verðlagseftirlit,“ segir hún.

„Fyrirtæki munu auðvitað lækka vöruverð til samræmis við þessar breytingar sem hafa þegar orðið. Ef menn draga lappirnar í því mun það bara koma niður á þeim sjálfum því að fólk mun bara sniðganga þau fyrirtæki“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×