Innlent

Ekkert heilbrigðisvottorð á störf landbúnaðarráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
„Okkur finnst miður að landbúnaðarráðherrann hafi ekki viljað takast efnislega á við innflutningsfyrirtæki fyrir dómi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Hæstiréttur hefur staðfest frávísun í máli Haga gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar landbúnaðarráðherra um að synja fyrirtækinu um innflutningskvóta á tilteknum tegundum osta og lífrænt ræktuðum kjúklingum.

„Það stendur skýrt í búvörulögunum að ef það sé skortur á tiltekinni landbúnaðarvöru þá eigi ráðherrann og skuli ráðherrann gefa út innflutningskvóta á lægri tolli. Það er það sem ráðherrann lætur hjá líða að gera og lagaramminn er þannig að hann kemst upp með það,“ segir Ólafur.

Ekki hafi fengist nein efnisleg niðurstaða um ákvörðun ráðherrans. „Hann bara sleppur á lagatæknilegu atriði og þetta er ekkert heilbrigðisvottorð á hans störf. Þetta er galli á kerfinu,“ segir Ólafur og bætir því við að það sé grundvallarregla í réttarfari að fyrirtæki og einstaklingar geti látið reyna á ákvarðanir og athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda fyrir dómstólum.

„Fyrst lögin eru þannig úr garði gerð að það er ekki hægt, þá held ég í fyrsta lagi að löggjafinn þurfi að endurskoða löggjöfina. Sjá til þess að það sé hægt að gera ráðherrann ábyrgan ef hann kýs að fara ekki að lögum í þessu efni,“ segir Ólafur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×