Innlent

Ekki miklu breytt þrátt fyrir nýjar reglur

Helgileikur í Fossvogsskóla Flestir skólar sem Fréttablaðið ræddi við ætla að halda í gamlar jólahefðir, með smávægilegum breytingum þó.
fréttablaðið/gva
Helgileikur í Fossvogsskóla Flestir skólar sem Fréttablaðið ræddi við ætla að halda í gamlar jólahefðir, með smávægilegum breytingum þó. fréttablaðið/gva
Grunnskólar í Reykjavík virðast ekki ætla að bregða mikið út af vananum á aðventunni varðandi jólahefðir og kirkjuferðir þetta árið.

Fréttablaðið hafði samband við nokkra skóla til að grennslast fyrir um hvaða áhrif breytingar mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um samskipti skóla og trúfélaga í borginni hafa á jólahald.

Flestir voru sammála um að ekki yrði miklu breytt; börnin færu áfram í kirkju, sálmar yrðu sungnir og helgileikir yrðu haldnir.

Allt er þetta þó partur af jólahefðum og fellur því ekki undir reglur Reykjavíkurborgar um trúboð í skólum. Kirkjuferðir verða þó farnar í fræðsluskyni og börnin munu ekki fara með faðirvorið eða verða látin signa sig í kirkjunni.

Þórður Óskarsson, aðstoðarskólastjóri Háteigsskóla, segir að farið verði í kirkju í fræðsluskyni en ekkert verði hróflað við hefðum innan skólans.

„Við lítum svo á að við fáum lánað húsnæði og ekkert trúboð er í því fólgið. Við munum ekki fara með faðirvorið, engir sálmar verða sungnir og það verður ekkert jólaguðspjall. Ekkert Heims um ból. Við sníðum af þessu sem okkur ber að gera.“

Einnig var rætt við forsvarsmenn Breiðagerðisskóla, Vesturbæjarskóla, Álftamýrarskóla, Fellaskóla og Laugarnesskóla. Flestir ætluðu að leyfa sálmasöngva í kirkjum, en Vesturbæjarskóli hefur tekið alfarið fyrir kirkjuheimsóknir, eins og í fyrra. Álftamýrarskóli sendir bréf heim til foreldra til að fá samþykki áður en farið er í kirkju.- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×