Innlent

Ekki skylda að greina frá innihaldinu

Boði Logason skrifar
Íslenskt neftóbak
Íslenskt neftóbak mynd/365
Það er ekki skylda að tilgreina innihaldslýsingu á íslensku neftóbaki, samkvæmt íslenskum lögum og reglum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir að embætti landlæknis eigi að sjá til þess að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um innihaldið.

Í frétt Vísi á föstudag kom fram að engin leið sé fyrir neytendur íslenska neftóbaksins að vita hvaða efni eru í því. Engar upplýsingar fást um það á heimasíðu ÁTVR, né á umbúðum tóbaksins. Ekki náðist í Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á föstudag, en nú hefur fréttastofu borist ítarlegt svar frá eftirlitinu þar sem farið er yfir málið. 

Í svarinu segir að samkvæmt reglugerð um tóbaksgjald og merkingar tóbaks sé það á ábyrgð ÁTVR að tryggja að allt tóbak sé merkt. Ekki er ljóst hvort hér sé átt við innihaldslýsingu.

Þá segir einnig að framleiðendur og innflytjendur tóbaksvara skulu árlega láta landlækni í té skrá yfir öll innihaldsefni, ásamt magni þeirra, sem eru notuð við framleiðslu á þessum tóbaksvörum. 

Með þessari skrá á að fylgja:

  1. Yfirlýsing þar sem greint er frá ástæðum fyrir því að viðkomandi innihaldsefnum er bætt í þessar tóbaksvörur.

  2. Skýring á virkni innihaldsefnanna og flokkun þeirra.

  3. Eiturefnafræðilegar upplýsingar sem framleiðandinn eða innflytjandinn hefur aðgang að um innihaldsefnin í brunnu eða óbrunnu formi þeirra, eftir því sem við á, einkum að því er varðar áhrif þeirra á heilsu, að teknu tilliti meðal annars til allra ávanabindandi áhrifa. Í skrá þessari skal innihaldsefnum vörunnar raðað eftir þyngd.


Landlæknir skal tryggja á viðhlítandi hátt miðlun þeirra upplýsinga sem veittar eru í samræmi við þessa grein, í því skyni að fræða neytendur. Samt sem áður skal tekið viðeigandi tillit til verndunar upplýsinga um sérstakar framleiðsluaðferðir sem eru viðskiptaleyndarmál.

Landlæknir skal tryggja að almenningur hafi aðgang að skránni yfir innihaldsefni hverrar vöru, þar sem fram kemur meðal annars hve mikla tjöru, nikótín og kolsýring hún gefur frá sér.

Landlæknir skal árlega senda velferðarráðuneytinu öll gögn og upplýsingar sem lagðar eru fram samkvæmt þessari grein.“ 

Þá segir í svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að samkvæmt þessum ákvæðum verði ekki annað séð en að það sé á ábyrgð landlæknis að tryggja á viðhlítandi hátt miðlun upplýsinga um innihaldsefni tóbaks, sem og að tryggja að almenningur hafi aðgang að þeim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×