Lífið

Eldar Ástþórsson: Mikil leynd hvíldi yfir þessum lista

Sara McMahon skrifar
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir það mikla viðurkenningu fyrir EVE Online að hafa lent á lista yfir bestu tölvuleiki allra tíma.
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir það mikla viðurkenningu fyrir EVE Online að hafa lent á lista yfir bestu tölvuleiki allra tíma. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er fyrst og fremst heilmikil viðurkenning fyrir okkur í CCP og okkar vinnu,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP. Tölvuleikurinn EVE Online, sem fagnaði tíu ára afmæli sínu á árinu, var valinn einn af 100 bestu tölvuleikjum allra tíma af tímaritinu PC Gamer.

„Við fengum að vita þetta um leið og blaðið kom út. Mikil leynd hvíldi yfir þessum lista og störfum dómnefndarinnar. Blaðinu var fyrst dreift til okkar sem á listanum voru og svo lenti það í verslunum á svipuðum tíma,“ segir hann.

EVE Online situr í tólfta sæti listans, en besti leikur allra tíma þykir vera The Elder Scrolls V: Skyrim. Viðurkenning sem þessi hefur að sögn Eldars jákvæð áhrif í för með sér fyrir fyrirtækið. „Við höfum áður hlotið viðurkenningar og verðlaun fyrir leikinn og það skilar sér helst í enn frekari athygli á honum. Til lengri tíma litið mætti þó sannarlega segja að það skilaði okkur fleiri spilurum.“

Í dag eru um 500 þúsund áskrifendur að leiknum, sem hefur tekið umtalsverðum breytingum á þeim tíu árum sem liðið hafa frá sköpun hans.

„Leikurinn hefur tekið umtalsverðum breytingum á þessum árum þó að kjarninn í hugmyndafræðinni sé enn til staðar. Á meðan aðrir leikir á þessum lista heyra nú sumir hverjir sögunni til er EVE enn að stækka og eflast og það er ekki síst því að þakka að hann er í stöðugri þróun,“ segir Eldar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×