Erlent

Eldri Bretar kusu framtíð sem hinir yngri vilja ekki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ungir Bretar kusu með yfirgnæfandi meirihluta með því að Bretland yrði áfram í ESB. Þeir kenna þeim eldri um niðurstöður kosninganna.
Ungir Bretar kusu með yfirgnæfandi meirihluta með því að Bretland yrði áfram í ESB. Þeir kenna þeim eldri um niðurstöður kosninganna. Vísir/Getty
Bretland kaus í gær að yfirgefa Evrópusambandið í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar rýnt er í tölurnar sést að yngri kynslóðir Bretlands kusu frekar með því að halda áfram innan Evrópusambandsins en þær eldri vildu brotthvarf Bretlands. Margir ungir Breta eru reiðir út í eldri samlanda sínum og kenna þeim um niðurstöðu kosninganna.

Samkvæmt könnun YouGov kusu 75 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18-24 með því að Bretland yrði áfram í ESB en 56 prósent þeirra sem eru á aldrinum 50-54 ára og 61 prósent þeirra sem eldri eru en 65 ára kusu með því að Bretland myndi yfirgefa ESB. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér fyrir neðan.

Í úttekt New York Times um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar er reynt að leita svara við þessari aldursskiptingu og þar segir að eldri kjósendur séu margir hverjir á eftirlaunum eða með fastar tekjur. Þeir þurfi því ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af slæmum efnahagslegum áhrifum brotthvarfs Breta til skamms tíma. Þeir eigi einnig skemmri tíma eftir ólifað og reikni því ekki með að eiga hlutdeild í efnahagslegum ávinningi sem fæst með því að vera áfram í ESB.

Yngri kjósendur hafi hinsvegar bæði meiru að tapa vegna efnahagslegra áhrifa af brotthvarfi Bretlands úr ESB auk þess sem að nú lítur út fyrir að þeir geti ekki unnið hvar sem er í Evrópu, líkt og áður, en algjör óvissa ríkir nú um framtíðarfyrirkomulag sambands Bretlands við ESB.

Á samfélagsmiðlum má glögglega sjá unga Breta lýsa yfir reiði sinni vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og kenna þeir margir hverjir hinum eldri um niðurstöðuna.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær Bretland mun segja sig úr ESB. Um leið og formlega er tilkynnt er um úrsögn Bretlands úr ESB hafa Bretar og ESB tvö ár til þess að semja um skilmála brotthvarfsins. Alls óvíst er hvað tekur við en væntanleg úrsögn Bretlands er fordæmalaus þar sem ekkert ríki hefur áður sagt sig úr ESB.


Tengdar fréttir

David Cameron segir af sér

David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætlar að segja af sér í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í gær þar sem Bretar ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Cameron sagði í yfirlýsinu nú fyrir stundu að hann muni hverfa úr embætti forsætisráðherra fyrir næsta flokksþing Íhaldsflokksins í október næstkomandi.

Bretar ganga úr Evrópusambandinu

Bretar völdu sér það hlutskipti að ganga úr Evrópusambandinu í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×