Lífið

Elísabet snýr aftur til Hollywood

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Elísabet er á mála hjá William Morris Endeavor - einni virtustu umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum
Elísabet er á mála hjá William Morris Endeavor - einni virtustu umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum GVA
Elísabet Ronaldsdóttir, klippari, kemur til með að klippa nýjustu kvikmynd leikstjóranna David Leitch og Chad Stahelski. Myndin á að heita John Wick og undirbúningur er þegar hafinn.

Þeir félagar hafa áður unnið að myndum eins og The Hunger Games og The Expendables, þó ekki í leikstjórastól.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Keanu Reeves og Willem Dafoe.

Elísabet er enginn nýgræðingur í Hollywood, en hún hefur áður klippt erlendar framleiðslur á borð við Contraband og Inhale, ásamt fjölda annarra kvikmynda.

Elísabet er á mála hjá Willams Morris Endeavor, einni virtustu umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum.

Aðspurð vildi Elísabet lítið segja um ráðninguna.

„Það er búið að ganga frá samningum en ég á eftir að skrifa undir,“ segir Elísabet.

„En einhver sagði mér að samningur væri ekki fulltryggður fyrr en maður væri búinn að vinna vinnuna, fá borgað, kaupa mat og skíta honum,“ segir Elísabet létt í bragði.

Elísabet mátti ekkert gefa upp um söguþráð myndarinnar en samkvæmt slúðurmiðlum vestanhafs fjallar myndin um fyrrverandi leigumorðingja hvers drápshvöt kemur upp að nýju eftir að þjófur stelur af honum bílnum og drepur hundinn hans um leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×