Innlent

Endalokin nálgast hjá embætti sérstaks saksóknara

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framlög til sérstaks saksóknara verða skorin niður um 700 milljónir króna í fjárlögum næsta árs. Gert er ráð fyrir að það dragi verulega úr starfsemi embættisins á árinu 2014. Útgjöld til annarra löggæslustofnana eru hins vegar aukin.

Löggæslustofnunum er að mestu hlíft við niðurskurði í fjárlagafrumvarpinu. Ef við skoðum útgjöld til nokkurra stofnana þá sést að framlög til ríkislögreglustjóra eru aukin um þrjú og hálft prósent frá fjárlögum þessa árs. Útgjöld til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aukast um 4,6 prósent og Landhelgisgæslunnar um 2,4 prósent. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fær rúmlega 1,1 milljarð króna og aukast útgjöld um 8 prósent milli ára. Þá er myndarleg hækkun vegna málefna hælisleitenda í samræmi við gefin fyrirheit þar um en útgjöld vegna málaflokksins nema 308 milljónum og er það hækkun um 283 prósent frá fjárlögum þessa árs.

Í öllum tilvikum eru verðlagshækkanir inni í fjárhæðum en þetta sýnir svart á hvítu þá afstöðu ríkisstjórnarinnar að standa vörð um öryggis- og löggæslumál.

Í fjárlögum 2012 námu útgjöld til sérstaks saksóknara rúmlega 1,3 milljörðum króna. Þau voru svo skorin niður í 849 milljónir króna á þessu ári en verða 559 milljónir króna í fjárlögum næsta árs.

Dregur úr umfangi embættis sérstaks saksóknara

Eiginlegur niðurskurður í fjárlögum næsta árs til embættis sérstaks saksóknara nemur hins vegar um 700 milljónum króna sé tekið mið af ríkisreikningi en embættið átti uppsafnaðar fjárheimildir í fyrra upp á 487 milljónir sem bættust við 849 milljóna króna framlag. Útgjöld ríkissjóðs vegna embættisins lækka því úr 1,2 milljörðum króna í 559 milljónir.

Í fjárlagafrumvarpinu segir: "Á árinu 2014 er síðan gert ráð fyrir að draga muni verulega úr umfangi (embættisins) þegar mörgum af þeim málum sem embættið hefur unnið að lýkur."

Frá því embætti sérstaks saksóknara var sett á laggirnar 2009 hefur því verið veitt samtals 4.988 milljónum króna vegna verkefna sem tengjast hruni fjármálakerfisins á Íslandi. Samkvæmt lögum um embættið gat innanríkisráðherra lagt það niður að fenginni umsögn ríkissaksóknara frá 1. janúar síðastliðnum.

Framtíðin embættisins ákveðin í október

Um þessi atriði segir í fjárlagafrumvarpinu: „Á árinu mun innanríkisráðuneytið vinna náið með embætti sérstaks saksóknara vegna fjárhagslegs uppgjörs embættisins, með það að markmiði að vel takist að ljúka þeim rannsóknum og verkefnum sem sérstakur saksóknari hefur með höndum. (....) Starfshópur hefur verið að störfum sem fékk það hlutverk að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og leggja fram tillögur að hagfelldu heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Vonast er til að skýrsla hópsins liggi fyrir í október og verða þá ákvarðanir teknar um framhaldið.“

Engin sparnaðarkrafa er gerð til sýslumannsembætta á landsbyggðinni og eru útgjöld í flestum tilvikum aukin. Loks má nefna að í frumvarpinu er lagt til að veita 500 m.kr. til eflingar almennrar löggæslu í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×