Innlent

Endar varla með öðru en frekari lántökum

Þorbjörn Þórðarson og Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Forsætisráðherra segir fækkun stöðugilda hugsaða til lengri tíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Forsætisráðherra segir fækkun stöðugilda hugsaða til lengri tíma.
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur meðal annars umboð til að leggja til fækkun ríkisstarfsmanna, eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Slíkri hagræðingu má meðal annars ná fram með kerfisbreytingum eins og sameiningum eða niðurlagningu stofnana.

Þessi áform koma fyrrverandi ráðherrum úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir einkennilega fyrir sjónir.

„Þetta er sannarlega ekki létt verkefni, eins og allir þekkja sem hafa staðið í þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. „En mér finnst nú búið að setja þetta allt saman í ansi skrítið samhengi þegar menn eru að tala um að heilbrigðiskerfið sé að þrotum komið en um leið er verið að gefa frá sér tekjur.“

Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, tekur í sama streng. Hún segir vissulega hægt að klípa áfram af útgjöldunum hér og þar, „en ég veit ekki hvar þeir ætla að taka stóru tölurnar. Ég tala nú ekki um nú þegar þeir eru búnir að afsala sér tekjum upp á tíu milljarða. Þetta hlýtur að enda með því að þeir taka bara lán.“

Í erindisbréfi hópsins segir að honum sé ætlað að leggja til aðgerðir til að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins. Í þeirri vinnu sé nauðsynlegt að fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins, svo sem fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiði til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna án þess að draga þrótt úr öllu kerfinu.



„Það getur verið að ríkisstarfsmönnum fækki til langs tíma,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, spurður hvort ekki þurfi að fækka ríkisstarfsmönnum ætli menn að spara myndarlega hjá ríkissjóði. „Þessi hópur á að skoða langtímaáhrifin og reyna að hagræða á þann hátt að þjónusta við almenning verði að minnsta kosti jafngóð áfram og helst betri. Til langs tíma má hugsa sér að með sameiningu stofnana þá fækki ríkisstarfsmönnum en það er ekki gert ráð fyrir verulegum uppsögnum ríkisstarfsmanna enda er hagkerfið viðkvæmt fyrir slíku.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að fækkun stöðugilda geti varla þýtt annað en meira álag á þá sem eftir verða. Ef þessu á að ná fram með sameiningu stofnana, þá hafi það alltaf einhvern kostnað með sér til að byrja með.

„Það er svo sem ekkert óeðlilegt við það að stöðugildin séu skoðuð. Ég var í svona hópi hvert einasta sumar og þá var allt undir,“ segir Oddný. „Hins vegar veit ég ekki hvernig í ósköpunum þeir ætla að fara að þessu. Við vorum búin að fara í gegnum þetta allt saman og eftir fjögur ár í niðurskurði erum við komin ansi nálægt þolmörkum.“

Hún segir vissulega hægt að klípa áfram af útgjöldunum hér og þar, „en ég veit ekki hvar þeir ætla að taka stóru tölurnar. Ég tala nú ekki um nú þegar þeir eru búnir að afsala sér tekjum upp á tíu milljarða. Þetta hlýtur að enda með því að þeir taka bara lán.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×