Innlent

Enn enginn samningafundur boðaður

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fimmtu lotu verkfallsaðgera lækna sem staðið hafa síðan í lok október lauk á fimmtudaginn.
Fimmtu lotu verkfallsaðgera lækna sem staðið hafa síðan í lok október lauk á fimmtudaginn. Vísir/Vilhelm
Enginn samningafundur hefur enn verið boðaður í kjaradeilu lækna og ríkisins og virðist langt í land með að samningar náist. Forstjóri Landspítans segir undirbúning hafinn á spítalanum fyrir verkfallsaðgerðir lækna eftir áramótin.

Fimmtu lotu verkfallsaðgera lækna sem staðið hafa síðan í lok október lauk á fimmtudaginn. Læknar hafa boðað hertar aðgerðir í byrjun næsta árs ef ekki verður búið að semja í kjaradeilu þeirra við ríkið fyrir þann tíma. Yfirmenn Landspítalans óttast áhrif þeirra aðgerða en til að mynda verður aðeins hægt að gera skurðaðgerðir einn dag í hverri viku á meðan á þeim stendur.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir engan nýjan samningafund hafa verið boðann í deilunni en enn ber mikið í milli deiluaðila. Síðasti samningafundur var á miðvikudaginn. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir spítalann nú undirbúa sig fyrir frekari verkfallsaðgerðir lækna. „ Við munum náttúrulega liggja yfir því næstur vikurnar að undirbúa það ef allt fer á versta veg. Á sama og við vonum það besta,“ segir Páll

Hann óttast áhrif verkfallsaðgerðanna á sjúklinga og segir að erfitt verði að tryggja öryggi þeirra. Páll biðlar til samningsaðila að leggja alla vinnu í það að ná saman. „ Ég held að það sé erfitt að ímynda sér mikið mikilvægara verkefni hér á landi næstu vikurnar heldur en það sem þar liggur á borðinu,“ segir Páll Matthíasson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×