Skoðun

Enn þegir siðanefnd - ógagnsæið algjört

Ragnhildur Sverrisdóttir skrifar
Blaðamenn ganga í kvöld til aðalfundar félags síns, Blaðamannafélags Íslands. Af því tilefni vil ég varpa fram nokkrum atriðum til umhugsunar, sem öll varða siðanefnd félagsins.

Hinn 4. febrúar sl. ritaði ég opið bréf til BÍ þar sem ég óskaði svara um vinnubrögð siðanefndar. Ég hafði kært umfjöllun í fjölmiðli til nefndarinnar, fyrir hönd þess sem taldi á sér brotið. Í framhaldinu var ég sannfærð um að ég yrði kölluð fyrir nefndina, líkt og skýrt er tekið fram í siðareglum hennar. Aldrei kom það kall. Ég var líka sannfærð um að nefndarmaður, sem hafði fjallað margoft m.a. á eigin bloggsíðu um meint svik og pretti kæranda – og síðar var allt hrakið – myndi sjá sóma sinn í að víkja sæti. Það gerðist ekki. En fyrst og fremst var ég sannfærð um að málsmeðferð öll yrði gagnsæ. Ekki hvarflaði annað að mér en að ég myndi hafa aðgang að svörum hins kærða fjölmiðils, rétt eins og sá fjölmiðill hafði aðgang að öllum atriðum kærunnar. Þetta reyndist hins vegar rangt. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hef ég ekki fengið neinar upplýsingar um á hvaða gögnum frá hinum kærða fjölmiðli siðanefnd Blaðamannafélagsins byggði úrskurð sinn.

Í kjölfar opna bréfsins, sem birtist í Fréttablaðinu, fékk ég svar frá stjórn Blaðamannafélagsins hinn 26. febrúar sl. Í svarinu, sem undirritað var af Hjálmari Jónssyni formanni, fyrir hönd stjórnar, kemur fram að siðanefnd sé kjörin á aðalfundi, hún starfi sjálfstætt og lúti ekki boðvaldi stjórnar með einum eða öðrum hætti. Í svarinu segir: „Enginn vafi er á að nefndin sinnir starfi sínu af kostgæfni og fagmennsku í hvívetna. Teljir þú að eitthvað megi betur fara í starfi, starfsreglum eða siðareglum félagsins er aðalfundur félagsins eðlilegasti vettvangurinn til þess að koma þeim athugasemdum á framfæri."

"Það tíðkast ekki…“Þar sem lögð var áhersla á sjálfstæði siðanefndar í svarinu óskaði ég eftir að siðanefndin tæki sjálf afstöðu til þeirra efnisatriða, sem fram komu í grein minni. Mér fannst það á allan hátt eðlilegra en að benda þeim, sem athugasemdir hafa við störf nefndarinnar, á að mæta á aðalfund félagsins. Í tölvupósti til siðanefndar 28. febrúar sl. ítrekaði ég því spurningar mínar um málsmeðferðina, um leið og ég spurði siðanefndina sjálfa hvort hún teldi ekki mikilvægt að vinnubrögð hennar og ákvarðanir uppfylltu kröfur um gagnsæi og opna starfshætti.

Mánuði síðar, 28. mars, ítrekaði ég erindið til siðanefndar, enda þótti mér þögnin orðin ærandi. Ég fékk svar degi síðar, frá formanni BÍ fyrir hönd siðanefndar og þótti mér þá fara lítið fyrir algjöru sjálfstæði nefndarinnar. Formaðurinn skrifaði að hann hefði verið beðinn að koma eftirfarandi á framfæri: „Það tíðkast ekki hjá þessari siðanefnd frekar en fyrri siðanefndum að svara spurningum er lúta að úrskurðum nefndarinnar, enda eru þeir endanlegir samkvæmt siðareglum BÍ."

Sama dag, 29. mars, sendi ég svarbréf og ítrekaði að spurningar mínar lytu í engu að efnislegri niðurstöðu nefndarinnar, heldur eingöngu að verkreglum hennar og vinnubrögðum. Í bréfinu ritaði ég:

„Er það svo, að siðanefndin vilji ekki svara hver afstaða hennar er til þess skýra ákvæðis í starfsreglum að hún skuli kalla málsaðila fyrir?

Er það svo, að siðanefndin vilji ekki upplýsa hver afstaða hennar er til hæfis nefndarmanna?

Og vill siðanefndin í engu svara því hvort eðlilegt sé að sá málsaðili sem kærir fái ekki að vita hverju hinn kærði svarar, sem hlýtur þó að vera ein af forsendum úrskurðar?

Að lokum: Ef þetta er afstaða siðanefndar Blaðamannafélags Íslands, þá óska ég eftir að fá það svar skriflegt frá siðanefndinni sjálfri."

Ekkert svar hefur borist.

Eru vinnubrögðin blaðamönnum að skapi?Mér þykir þetta mál umhugsunarvert fyrir blaðamenn. Eru þeir sáttir við þau vinnubrögð, sem siðanefndin hefur tamið sér? Uppfylla vinnubrögð nefndarinnar kröfur blaðamanna um gagnsæi og opna starfshætti? Eru þeir sáttir við að nefndin skuli ekki leggja öll spil á borðið og sýna skýrt hvernig hún vinnur úr þeim málum sem henni berast? Nú liggur fyrir að í kvöld verður kosið til formanns Blaðamannafélags Íslands. Eru frambjóðendurnir sáttir við þessa birtingarmynd ógagnsæis og leyndarhyggju?

Í síðasta hefti Blaðamannsins, félagstíðinda BÍ, er sagt af viðbrögðum BÍ við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er m.a. skrifað á þá leið, að hér þurfi að vera lagaumhverfi, sem geri fjölmiðlum kleift að sinna hlutverki sínu í lýðræðisríki. Svo segir: „Fjölmiðlamönnum ber að sama skapi að líta sér nær og veita sjálfum sér faglegt eftirlit með sínum eigin reglum, siðareglum, vegvísi að faglegum vinnubrögðum."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×