Skoðun

Epli og könglar

Eiríkur Smári Sigurðarson skrifar
Hvað segði íþróttafólk við því ef bornar væru saman heilu íþróttagreinarnar á grunni markatölu? Í sumum íþróttum eru einfaldlega ekki skoruð mörk heldur er árangur metinn á annan hátt. Í körfubolta eru körfurnar og stigin mörg en í fótbolta eru þau fá. Þetta þarf að hafa í huga þegar ástundun og árangur í íþróttum er veginn og metinn.

Í Fréttablaðinu 26. október birtist frétt sem er byggð á bloggpistli frá því daginn áður. Í fréttinni er fjallað um lítil afköst vísindamanna við Háskóla Íslands, þ.e. þeirra sem stunda hug-, félags- og menntavísindi. Niðurstaðan er fengin með því að bera saman birtingar greina í svokölluðum ISI tímaritum. Sá samanburður er álíka gæfulegur og að bera saman ástundun og árangur í íþróttum með markatölu sem eina mælikvarðann.

Ólíkt eftir greinum

Birtingar niðurstaðna rannsókna á viðurkenndum vettvangi er góður mælikvarði á árangur rannsóknastarfs. Um það eru flestir sammála. Það er hins vegar mjög ólíkt eftir greinum hver þessi viðurkenndi vettvangur er. Í sumum greinum vísinda eru svo til allar niðurstöður birtar í tímaritum. Þetta á við um stóran hluta verkfræði- og náttúruvísinda ásamt heilbrigðisvísindum.

Í hug-, félags- og menntavísindum er hins vegar mun algengara að birta niðurstöður rannsókna í bókum eða ritgerðum sem birtast í ritgerðasöfnum. Ekki er til neitt skýrt yfirlit yfir mismunandi birtingahefð á Íslandi en styðjast má við greiningu sem Danska rannsóknaráðið birtir árlega (https://fivu.dk/publikationer/2012/filer-2012/forskningsbarometer-2012.pdf).

Þar sést (bls. 72) að 84% allra birtinga í verkfræði- og náttúruvísindum eru í tímaritum. Í heilbrigðisvísindum er sambærileg tala 96%. Í félagsvísindum eru 60% birtinga í tímaritum og í hugvísindum (sem í tilfelli Dana innihalda menntavísindi) er hlutfallið 52%. Greinar í ritgerðasöfnum eru hins vegar 44% af öllum birtingum í hugvísindum. Fyrirfram er engin ástæða til að ætla að þessi hlutföll séu önnur á Íslandi. Samanburður sem nær einungis yfir tímaritsbirtingar gefur því mjög villandi mynd af hlutfallslegum styrk og vinnuframlagi vísindanna.

Ómarktækur samanburður

Málið versnar enn þegar hin svokölluðu ISI-tímarit eru skoðuð nánar. ISI er í raun gagnagrunnur yfir mikinn fjölda tímarita sem bandaríska fyrirtækið Thomson Reuters á og rekur. Hann nær yfir velflest tímarit í verkfræði- og raunvísindum og heilbrigðisvísindum. Því er hann góður grunnur til að skoða virkni og árangur á þessum sviðum.

Það er hins vegar almennt viðurkennt að hann er gagnslítill þegar kemur að hug-, félags- og menntavísindum. Það vantar einfaldlega stóran hluta virtustu tímarita í þessum greinum í grunninn. Þetta þýðir að stór hluti birtinga hug-, félags- og menntavísindafólks í tímaritum ratar ekki inn í tölfræði ISI. Þetta gerir samanburð byggðan á ISI-grunninum ómarktækan.

Vel þekkt staðreynd

Að lokum er nauðsynlegt að minnast á aðra vel þekkta staðreynd sem hefur mikil áhrif á alla tölfræði um birtingar á ólíkum fræðasviðum. Mjög víða innan verk-, tækni- og heilbrigðisvísinda tíðkast að margir höfundar sameinist um greinar. Þegar doktorsnemar birta greinar í tímaritum eru t.d. leiðbeinendur þeirra líka skráðir höfundar greinanna ásamt öðrum sem tengdust viðkomandi rannsókn.

Í félags- og menntavísindum er þetta ekki eins algengt og enn sjaldgæfara í hugvísindum. Þessi munur helgast fyrst og fremst af mismunandi hefðum og ekki gott að segja hvort önnur leiðin sé betri en hin. Þetta þýðir hins vegar að sambærileg virkni í til dæmis heilbrigðisvísindum og hugvísindum kemur fram í mun færri skráðum birtingum á höfunda í hugvísindum en í heilbrigðisvísindum.

Af þessu ætti að vera ljóst að samanburðurinn sem greinin í Fréttablaðinu byggir á er ekki bara marklaus heldur fráleitur. Vissulega má ræða innbyrðis styrkleika ólíkra greina innan Háskóla Íslands en sú umræða verður að byggja á marktækum samanburði.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×