Skoðun

Er ég í falinni myndavél?

Jóhannes Ingi Kolbeinsson skrifar
„Valitor fagnar allri samkeppni sem er á jafnréttisgrunni.“ Þetta skrifaði Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, í Fréttablaðið 18. apríl síðastliðinn.

Valitor, fyrir þá sem ekki vita, er eitt þriggja fyrirtækja sem viðurkenndu í lok árs 2007 langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð, sem miðaðist við að koma fyrirtæki mínu, Kortaþjónustunni, út af íslenska markaðnum. Þetta er þekkt sem kortasamráðsmálið og muna sjálfsagt margir eftir skeytasendingum milli forstjóranna sem merkt voru „Delete eftir lestur.“

Með því að viðurkenna verknaðinn og gangast undir að hætta ólöglegum aðgerðum fékk Valitor lægri sekt en ella. En þann 12. apríl sl. fékk Valitor svo hæstu sekt sem lögð hefur verið á íslenskt fyrirtæki fyrir markaðsmisnotkun – hálfan milljarð króna – fyrir að hafa á árunum 2007 til 2009 misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína í samkeppni, m.a. við Kortaþjónustuna. Þetta var sem sagt á sama tíma og Samkeppniseftirlitið var að semja um lægri sekt gegn bót og betrun.

Málsvörnin léttvæg fundin

Málsvörn Viðars er skemmtileg: Valitor er í raun lítilmagninn að berjast við vonda erlenda „risann“ og Samkeppniseftirlitið áttar sig ekki á „sjónarspilinu“. Þeir sem lesa úrskurð Samkeppniseftirlitsins sjá hins vegar vel hvernig þessi rök eru vegin og léttvæg fundin. Kortaþjónustan er einfaldlega íslenskt fyrirtæki í eigu Íslendinga. Við erum í sömu stöðu og þúsundir annarra íslenskra fyrirtækja sem kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum og endurselja hér á landi.

„Valitor fagnar allri samkeppni sem er á jafnréttisgrunni.“ Það er kannski þess vegna sem Valitor sótti í skjóli aðstöðu sinnar upplýsingar um viðskiptavini Kortaþjónustunnar og misnotaði með ólögmætum hætti til að ná þeim frá okkur? Það var kannski þess vegna sem Valitor fór fram á að fá upplýsingar hjá Reiknistofu bankanna til að geta betur herjað á viðskiptavini okkar? Það var kannski þess vegna sem Valitor seldi ákveðnum viðskiptavinum sínum þjónustu undir kostnaðarverði svo þeir annað hvort kæmu til Valitors eða myndu ekki fara frá Valitor til Kortaþjónustunnar?

Samfelld brotasaga frá 2002

„Valitor fagnar allri samkeppni sem er á jafnréttisgrunni.“ Þegar ég las þetta að morgni 18. apríl voru mín fyrstu viðbrögð að horfa í kringum mig og athuga hvort ég væri í falinni myndavél. Frá því að við stofnuðum Kortaþjónustuna árið 2002 hefur Valitor stundað allt annað en samkeppni á jafnréttisgrunni.

Samkeppnislagabrot á samkeppnislagabrot ofan og sektir sem nálgast nú milljarð króna. Og taktíkin alltaf sú sama: Lofa bót og betrun, þykjast „fagna samkeppni“ en halda brotunum áfram í von um að bola okkur út af markaðnum á endanum.

Þeir sem áhuga hafa geta lesið meira um framferði Valitors á www.Kortasamráð.is, upplýsingavef um þá viðskiptahætti sem félag Viðars hefur stundað frá því að Kortaþjónustan tók til starfa. Við þann lestur sér fólk að kannski er skiljanlegt að eina málsvörnin sem Viðar getur fundið fyrir sig og sitt fyrirtæki gangi út á að reyna að telja okkur trú um að vindmyllurnar sem hann berst við séu risar.

Kunna ekki að skammast sín

Viðar segir að „ágreiningur“ sé milli Valitors og Samkeppniseftirlitsins um nýjasta dóminn yfir félaginu. Þegar dómurinn er skoðaður sést vel hversu afdráttarlaus hann er og að „ágreiningurinn“ er einfaldlega réttlæting afbrotamannsins á því hvers vegna hann framdi glæpinn. Það sorglega er hins vegar að málatilbúnaður Viðars bendir til að afstaða hans og þess fyrirtækis sem hann stýrir hafi ekkert breyst þrátt fyrir að þeir séu reglulega gripnir í bólinu við að brjóta samkeppnislög. Hjá Valitor virðast menn ekki kunna að skammast sín og það er slæmur fyrirboði um það sem koma skal í þeirra viðskiptaháttum.


Tengdar fréttir

Erlendi risinn á bak við íslenska nafnið

Ágreiningur er milli Valitor og Samkeppniseftirlitsins um túlkun samkeppnislaga varðandi starfsemi fyrirtækisins á árunum 2007-2008. Þar hefur m.a. verið litið framhjá þeirri staðreynd að Valitor var ekki í beinni í samkeppni við Kortaþjónustuna í færsluhirðingu* á þessum tíma, heldur við erlenda risann á bak við íslenska nafnið. Það vekur undrun að hér skuli kosið að láta sem eftirfarandi samhengi skipti engu máli.




Skoðun

Sjá meira


×