Innlent

Erfiðara að takast á við einelti stúlkna

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ingibjörg Auðunsdóttir heldur erindi á málþingi um einelti í dag. fréttablaðið/daníel
Ingibjörg Auðunsdóttir heldur erindi á málþingi um einelti í dag. fréttablaðið/daníel Mynd / Daníel
„Erfið samskipti og einelti stúlkna er vaxandi vandamál,“ segir Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.



Ingibjörg heldur erindi í dag á málþingi sem Olweusar-áætlunin gegn einelti stendur fyrir. Hún var ein af fyrstu verkefnastjórunum sem fóru í gegnum Olweusar-áætlun og síðustu sex ár hefur hún einbeitt sér að einelti stúlkna.



„Í dag er mun meira kallað eftir aðstoð vegna samskiptaerfiðleika stúlkna. Kannski er ein skýringin sú að fólk hefur meiri skilning og ákveðið vinnulag varðandi stráka en er óöruggara og oft ráðþrota gagnvart hegðun stúlkna sem er meira falin.“



Einelti stúlkna lýsir sér oft í baktali, að hundsa og útiloka, en það er gert án þess að fullorðnir sjái.

„Samskiptin hafa líka færst yfir í tæknina sem gerir málið enn flóknara. Tæknin er góð en spurning hvernig við notum hana og hvaða áhrif hún hefur á þroska barna. Félagsfærnin fer minnkandi ef börnin hafa alltaf samskipti í gegnum tölvur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×