Erlent

Éttu og haltu kjafti

Óli Tynes skrifar
Premium-samloku flutningavél.
Premium-samloku flutningavél.

Þar sem Norðmaðurinn Henrik Ulven sat í Ryanair flugvélinni frá Berlín til Rygge í Noregi ákvað hann að gera nú vel við sig.

Á matseðlinum var boðið upp á tvennskonar samlokur. Annarsvegar var venjuleg pökkuð samloka sem kostaði sem svarar 474 íslenskum krónum.

Hinsvegar var fersklöguð „Premium" samloka sem kostaði 730 krónur. Henrik ákvað semsagt að taka dýrari kostinn.Þegar hann hinsegar fékk fersklöguðu „Premium" samlokuna sína var hún lin eins og gúmmi og honum fannst hún óæt.

Hann kallaði því á flugfreyjuna og sagðist annaðhvort vilja fá samlokuna endurgreidda eða býtta á henni og súkkulaði-múffu.

Flugfreyjan tilkynnti honum þá að þau myndu kæra hann til lögreglunnar. Henrik hélt að hún væri að grínast.

En þegar lent var í Rygge biðu eftir honum tveir lögreglumenn. Norska Aftenposten segir að þegar Henrik hafi gefið þeim skýringu á því af hverju flugstjórinn hefði óskað aðstoðar þeirra hafi kumrað í þeim. Og Henrik fékk að fara frjáls ferða sinna.

Aftenposten hafði ekki tekist að ná í talsmann Ryanair þegar þessi frétt var skrifuð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×