Viðskipti innlent

Evran er álitlegasti kosturinn

BBI skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Mynd/Stefán Karlsson
Evran er álitlegasti kosturinn sem Ísland hefur ef til stendur að taka upp erlendan gjaldmiðil hér á landi eða festa íslensku krónuna við hann á annað borð. Ef Evran yrði ekki fyrir valinu væri danska krónan næstbesti kosturinn.

Þetta kemur fram í ritinu Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag. Ritið er 622 blaðsíður að lengd og tekur ítarlega á álitaefnum sem þarf að hafa í huga þegar lagt er mat á heppilegasta fyrirkomulag gjaldmiðilsmála á Íslandi.

Fram kemur að ekki er til eitt einhlítt svar við spurningunni um hvaða gjaldmiðill henti Íslandi best. Evran þykir besti kosturinn enda vegur evrusvæðið langþyngst í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og erlendum skuldum hennar. Evrusvæðið er einnig næststærsta myntsvæði heimsins og því reyna mörg lönd að draga úr sveiflum gagnvart henni, sem væri ábati fyrir Ísland.

Aftur á móti eru tengsl innlendrar hagsveiflu við hagsveiflu evrusvæðisins lítil. Sé miðað við tengsl hagsveiflu landa henta norrænu gjaldmiðlarnir best. Þar er danska krónan álitlegust enda er hún fasttengd við Evruna.

Bandaríkjadalur er sá kostur sem næstur kemur, enda er bandaríska gjaldsvæðið stórt. Viðskipti Íslands við Bandaríkin eru hins vegar takmörkuð og auk þess eru hagsveiflur landanna ólíkar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×