Skoðun

Evran og hin sterka góða íslenska króna

Hreggviður Jónsson skrifar
Það er þreytandi að hlusta sífellt á, hvernig íslenska krónan sé rosa góð fyrir okkur á Íslandi. „Krónan okkar hefur nefnilega bjargað okkur út úr efnahagsvandanum“, segja þeir sem halda þessu fram. Hverjum hefur hún bjargað? Jú, LÍÚ, Bændasamtökunum, þeim sem eiga fjármuni í skattaskjólum og öðrum útflytjendum. Þetta er auðvitað á kostnað almennings. Við viljum sko ekki evru = €, því hún er svo slæm. Sjáðu Íra eða Grikki.

Nú er spurningin hvaða tölur eru notaðar til að færa rök fyrir þessu. Niðurstaða: Aungvar tölur liggja á bak við þessi rök.

Nú ætla ég að tíunda örfáar tölur, sem innlegg í þessa umræðu. Staðan hjá launamanninum JJ, 18-08-2008 og þremur árum síðar, 18-08-2011: Skoðum nú laun hans, bílaeign og húsnæðislán. Hann hafði kr. 250 þúsund í laun og hefur enn, bílinn kostaði kr. 2.780.000, en nýr kostar nú kr. 6.000.000 og húsnæðislánið var kr. 3.462.296, er nú kr. 5.347.270, með afborgunum.

Lítum nú á þetta með hliðsjón af því, að ef hér hefði verið evra, en ekki króna. Launin voru € 2.083, eru nú € 1.523, sem sagt launalækkun um 36,75%. Bíllinn kostaði € 23.145 = 11 mánaðarl., nýr bíll eins búinn kostar nú € 36.560 = 24 mánaðarl. Húsnæðislánið var € 28.659 = 13,8 mánaðarl., er nú € 32.586 = 21 mánaðarlaun. Það er athyglivert, að ef lánið hefði verið í € til 40 ára með jafngreiðslum, myndi það lækka í € 26.510 = 12,7 mánaðarl. á evrusvæðinu.

Hjá Grikkjum og Írum er kaupið áfram í €, lánin áfram í € og bílinn áfram í €. Sem sagt hvergi meiri kaupmáttarrýrnun, en hjá okkur Íslendingum. Hvað varðar hlutfallið milli € og US$, er það nánast það sama nú og 2008, eða 1,4x allan tímann. Og það þrátt fyrir spá nær daglega um að € sé alveg búin. Niðurstaðan er alveg ljós, hagsmunum almennings er aðeins borgið með evru eða US$.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×