Viðskipti innlent

Evran sækir í sig veðrið

Gengi krónunnar hefur veikst aðeins gagnvart evru frá því í síðustu viku. Nú þegar þetta er ritað (kl. 09:40) stendur evran í rúmum 153 krónum á innlendum millibankamarkaði en í síðustu viku kostaði hún 151 krónur. Evran hefur á sama tíma verið að sækja í sig veðrið gagnvart dollaranum og almennt að styrkjast á gjaldeyrismörkuðum eftir mikla lækkun í nóvember.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að önnur þróun hefur verið á gengi krónu gagnvart Bandaríkjadollar og hefur verð hans í krónum talið lækkað nánast stöðugt það sem af er þessum mánuði. Nú stendur Bandaríkjadollar í tæpum 115 krónum en í lok síðasta mánaðar kostaði hann rúmar 117 krónur. Dollarinn er samt enn talsvert dýrari en hann var í upphafi nóvember þegar hann kostaði tæplega 111 krónur.

Gengisvísitala krónunnar, sem vegur saman verð gjaldmiðla helstu viðskiptaþjóða Íslands gagnvart krónunni, þar með hækkað nokkuð sem má að mestu rekja til styrkingar evru gagnvart krónu. Stendur gengisvísitalan nú í tæpum 207 stigum en var um 205 stig fyrir rúmri viku.

„Þessi þróun er svipuð og við höfðum reiknað með og teljum við að sem stendur sé ekki mikil innistæða til styrkingar krónunnar á næstu vikum. Því reiknum við áfram með tiltölulega stöðugri krónu það sem eftir lifir árs sem skýra má meðal annars með gjaldeyrishöftum og talsverðum afgangi af vöruskiptum við útlönd," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×