Viðskipti innlent

Exeter-dómi snúið: Styrmir í árs fangelsi

Stígur Helgason skrifar
Styrmir hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.
Styrmir hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.
Hæstiréttur hefur dæmt Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi forstjóra MP Banka, í eins árs fangelsi í svokölluðu Exeter-máli.

Styrmir er fundinn sekur um hlutdeild í umboðssvikum Jóns Þorsteins Jónssonar og Ragnars Z. Guðjónssonar, fyrrverandi stjórnarformanns og forstjóra Byrs sparisjóðs, sem áður höfðu hlotið fjögurra og hálfs árs fangelsisdóma fyrir sinn þátt í Hæstarétti.

Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Styrmi.

Málið snerist um eins milljarðs lánveitingar Byrs til félagsins Exeter Holding til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr, meðal annars af MP banka, Jóni Þorsteini og félagi í eigu Ragnars.

Hæstiréttur kemst að því að Styrmir hafi ekki síður átt þátt að skipuleggja brotin en Jón Þorsteinn og Ragnar og því sé rétt að sakfella hann.

Málið hefur velkst í dómskerfinu; héraðsdómur sýknaði fyrst alla þrjá, en tók ekki efnislega afstöðu til þáttar Styrmis, þar eð hann var ekki talinn hafa getað gerst sekur um hlutdeild í brotum sem ekki voru framin.

Hæstiréttur sneri hins vegar dómnum yfir Jóni Þorsteini og Ragnari en vísaði þætti Stymis aftur heim í hérað. Þar var hann sem áður segir sýknaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×