Innlent

Fá eingreiðslu og orlofsuppbót

Hjá ríkissáttasemjara Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, og Ragnar Árnason hjá Samtökum atvinnulífsins.
Hjá ríkissáttasemjara Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, og Ragnar Árnason hjá Samtökum atvinnulífsins. VÍSIR/DANÍEL
Öll félögin, þar sem kjarasamningur Alþýðusambandsins við Samtök atvinnulífsins var felldur í janúar, hafa nú staðfest samninginn nema eitt, það er Verkalýðsfélag Akraness. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður hjá ríkissáttasemjara.

„Ég gat ekki fallist á það skilyrði að þessar breytingar myndu einnig gilda um þá sérkjarasamninga sem eftir er að gera, til dæmis hjá stóriðjunni á Grundartanga,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Í sáttatillögunni, sem fram kom í fyrradag, var boðin 14.600 króna eingreiðsla fyrir janúarmánuð og hækkun á desember- og orlofsuppbót, samtals um 30 þúsund krónur, miðað við felldan samning.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, segir að þetta sé allt í áttina, eins og hann orðar það.

„Ég leyndi ekki óánægju minni með samninginn sem var gerður og útspil ríkisstjórnarinnar. Ég taldi þetta ekki boðlegt og sagði að meira þyrfti að koma inn í samninginn. Það er gott mál að það skyldi takast að ná verulegri hækkun á orlofs- og desemberuppbótina. Þetta eru greiðslur sem eru komnar til að vera en fara ekki bara inn og út eins og eingreiðslur. Þetta eru í sjálfu sér ágætishækkanir við samninginn sem búið var að ganga frá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×