Innlent

Fá ekki vinnu vegna aldurs

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Kennitalan fælir atvinnurekendur frá því að ráða eldra fólk í vinnu þó það uppfylli allar kröfur. Þetta segir formaður Landssambands eldri borgara sem telur mikilvægt að eldra fólki sé ekki ýtt út af vinnumarkaðnum enda sé reynsla þeirra verðmæt.

Í vikunni var haldin ráðstefna sem starfslok og atvinnumál þeirra sem eru 60 ára og eldri. Á meðal þeirra sem héldu erindi var Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara. Hún segir að fyrir þá sem missa vinnuna eftir fimmtugt geti oft reynst mjög erfitt að finna nýja vinnu. Svo virðist sem aldurinn komi í veg fyrir að atvinnurekendum þyki fólkið eftirsóknarverðir starfskraftar.

„Það eru mörg dæmi um það að kennitalan hún fæli frá þegar að fólk er að leita sér að atvinnu. Jafnvel þó svo að það hafi bara ágæta möguleika og þá hæfileika sem að spurt er um,“ segir Jóna Valgerður en hún segir aldurinn fara að hafa áhrif fljótlega eftir að fólk verður fimmtugt. „ Það er eins og atvinnurekendur séu hræddir við að ráða eldri borgara og haldi að þeir verði meira veikir en rannsóknir hafa sýnt að svo er alls ekki. Þeir sem eru mest frá í veikindaforföllum eru 18 til 30 ára og alls ekki þeir sem eru 60 ára og eldri, þeir mæta mjög vel,“ segir Jóna Valgerður.

Hún segir mikilvægt að samfélagið ýti ekki eldra fólki út af vinnumarkaði heldur nýti krafta þeirra þar sem reynsla þeirra sé verðmæt. „ Með þessari fjölgun aldraðra sem verður þá eigum við ekki að líta á það sem vandamál. Við eigum að líta á það sem auðlind sem hægt er að nýta í framtíðinni. Þó þetta sé vaxandi auðlind þá er þetta líka fólk með mikla reynslu og þekkingu sem verður nauðsynlegt að nýta á vinnumarkaði framtíðarinnar,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×