Innlent

Fæðingamet slegið - rúmlega fimm þúsund börn

Mynd: Hagstofan

Árið 2009 fæddust 5.027 börn hérlendis, 2.561 drengur og 2.466 stúlkur. Það eru 192 fleiri börn en ári áður, en þá fæddust hér 4.835 börn. Aldrei áður hafa fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári.

Áður fæddust flest börn árið 1960 þegar 4.916 börn fæddust og árið 1959 þegar 4.837 börn litu dagsins ljós.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Meirihluti barna fæðist utan hjónabands

Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Íslandi fæddist í hjónabandi árið 2009 (35,6%). Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, en þá var það 36,5%. Frá 1961 til 1996 lækkaði hlutfall þeirra barna sem fæddust í hjónabandi úr 74,3 % niður í 36,5% á sama tíma og hlutfall þeirra barna sem fæddust í óvígðri sambúð jókst úr 13,4% í 50,9%. Það hlutfall er óbreytt árið 2009 (48,8%). Hlutfall barna sem fæðast utan sambúðar eða hjónabands er því hlutfallslega nokkuð svipað og það var á árunum 1961-1965. Þá fæddust 12,4% allra barna utan hjónabands eða sambúðar en voru 15,6% árið 2009, segir á vef Hagstofunnar.

Hvort barn fæðist innan eða utan hjónabands fer mikið eftir því hvar í systkinaröðinni það er. Árið 2009 fæddist um fimmtungur frumburða (20,8%) innan hjónabands og 55,4% frumburða móður áttu foreldra í óvígðri sambúð. Áberandi flest börn mæðra sem ekki voru í hjónabandi eða sambúð voru fyrsta barn; foreldrar 23,8% fyrsta barns voru ekki í sambúð, samanborið við 11,0% foreldra annars barns, 8,1% þriðja barns og 12,9% fjórða barns eða fleiri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×