Erlent

Fæðingarmyndatökur angra danskar ljósmæður

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Ljósmóðir klippir á naflastreng nýfædds barns.
Ljósmóðir klippir á naflastreng nýfædds barns. Vísir/AFP
Danskar ljósmæður eru ekki spenntar fyrir því að að myndir, sem teknar eru af þeim við fæðingu, séu birtar opinberlega. Danska Ríkisútvarpið segir frá þessu.

„Við sjáum myndirnar birtast á Facebook eða öðrum samfélagssíðum, jafnvel þó fullyrt hafi verið að þær yrðu ekki opinberaðar," segir Marianne Tolstrup, forstöðukona á spítalanum í Hvidövre. Flestar fæðingar í Danmörku fara fram á spítalanum.

„Birting myndanna er sérstaklega óþægileg þegar barnsmóðirin er ósátt við framkvæmd fæðingarinnar og ljósmóðirin nefnd á nafn.“

Nú hefur Region Midtjylland, yfirstjórn heilbrigðisþjónustu á Mið-Jótlandi, ákveðið að setja skýrar reglur um myndatökur á sjúkrahúsum. Verða reglurnar aðgengilegar ljósmæðrum, sjúklingum og gestum.

Ann Fosgaard, yfirljósmóðir hjá Region Midtjylland, segir líklegt að reglugerðin leiði til þess að fleiri ljósmæður bendi barnshafandi á þær reglur sem fylgi myndatökum eða einfaldlega verði ekki við beiðni þeirra um leyfi til myndatöku.


Samkvæmt dönskum lögum er ólöglegt að taka ljósmyndir eða kvikmyndir á spítölum eða stofnunum án leyfis allra aðila sem fram koma á mynd. Þó svo að flestar fjölskyldur biðji um leyfi áður en ljósmyndir eru teknar er það talsvert þýðingarmeira nú en á árum fyrr. Vill Fosgaard meina að fæstir hafi hugmynd um hve víða slíkar myndir geti farið á samfélagsmiðlum nú til dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×