Innlent

Fær þrjár milljónir í bætur frá ríkinu þrátt fyrir að hafa brotið lög

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn starfaði hjá Seðlabanka Íslands.
Maðurinn starfaði hjá Seðlabanka Íslands. vísir/arnþór
Íslenska ríkið þarf að greiða fyrrverandi starfsmanni Seðlabanka Íslands þrjár milljónir króna í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar en með því sneri dómurinn niðurstöðu héraðsdóms. Einn dómari skilaði sératkvæði í málinu og vildi sýkna ríkið. Var þetta niðurstaða dómsins þrátt fyrir að maðurinn hafi brotið lög í starfi sínu.

Maðurinn, Hallgrímur Ólafsson, er viðskiptafræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari. Átti hann í félagi sem stóð í miklum fjárfestingum með hlutabréf, framvirka samninga og gjaldmiðla á árunum fyrir hrun. Á meðan starfaði hann í Seðlabankanum og hafði aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum þar innanhúss. Er upp komst um málið sumarið 2013 var Hallgrími sagt upp störfum.

Höfðaði hann mál á hendur Seðlabankanum vegna uppsagnarinnar. Starfsmenn bankans báru fyrir dómi að hann hefði gróflega brotið trúnað, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Dómurinn féllst á það með Seðlabankanum að framangreind gjaldeyrisviðskipti og fyrirsvar áfrýjanda fyrir félagið hafi verið nýjar upplýsingar, sem honum hafi ekki mátt vera að fullu kunnar á árinu 2012, og að þessi atriði hafi falið í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum hans. Taldi dómurinn að í háttalaginu fælist lögbrot en veittu bankanum ekki heimild til að segja honum upp störfum án undangenginnar áminningar. Var því fallist á það með áfrýjanda að uppsögnin hefði verið ólögmæt.

Hallgrímur fór fram á tæpar tuttugu milljónir króna í bætur en dómurinn taldi þá upphæð of háa enda sætti starfsöryggi starfsmanna bankans takmörkunum líkt og annarra starfsmanna ríkisins. Þá hafði hann brotið af sér í starfinu. Voru bætur því dæmdar að álitum, þrjár milljónir króna.

Einn dómari málsins, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði í málinu og taldi að háttsemi starfsmannsins hefði verið slík að rétt hefði verið að segja honum upp án þess að veita honum áminningu á undan. Taldi hann að sýkna ætti ríkið af kröfu mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×