Innlent

Færri börn skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu núna en fyrir tíu árum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
2.573 börn voru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu á síðasta ári. Það er 59 prósent allra barna sem fæddust það ár.
2.573 börn voru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu á síðasta ári. Það er 59 prósent allra barna sem fæddust það ár. Vísir/Getty Images
Hlutfall barna sem eru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu hefur hrunið á síðustu tíu árum. Árið 2005 var hlutfallið 80 prósent en var komið niður í 59,4 prósent á síðasta ári. Á öllu tímabilinu voru 72,6 prósent barna skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu.

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög.

Börn sem skráð eru utan trúfélaga við fæðingu hefur einnig fjölgað á tímabilinu en hlutfall þeirra var hæst árið 2012, þegar rúmlega 6 prósent barna voru skráð utan trúfélaga við fæðingu. Hlutfallið var rúm tvö prósent árið 2005 en var fjögur prósent á síðasta ári. Ef allt tímabilið er skoðað er hlutfalli barna skráð utan trúfélaga 3,8 prósent.

Næst algengast er að börn séu skráð í Kaþólsku kirkjuna við fæðingu. Á tímabilinu hafa 4,6 prósent lifandi fæddra barna verið skráð í kirkjuna. Árið 2014 voru 3,8 prósent barna skráð í trúfélagið við fæðingu en hæsta hlutfallið var árið 2008 þegar 6 prósent voru skráð í félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×