Innlent

Færri geta lesið sér til gagns

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skólahald hófst víðast hvar í grunnskólum í gær. Hér hlýða nemendur í Hlíðaskóla, ásamt foreldrum, á umsjónarkennara.
Skólahald hófst víðast hvar í grunnskólum í gær. Hér hlýða nemendur í Hlíðaskóla, ásamt foreldrum, á umsjónarkennara. Fréttablaðið/GVA
Niðurstaða lesskimunar meðal nemenda í öðrum bekk grunnskóla Reykjavíkur síðasta vor var sú lakasta frá árinu 2005.

Niðurstöðurnar sýna að einungis 63 prósent sjö ára barna gátu lesið sér til gagns. Árið áður var hlutfallið 69 prósent og hafði þróunin heldur verið upp á. Lökust var niðurstaðan 2005 að afloknu kennaraverkfalli, þegar 60 prósent gátu lesið sér til gagns.

Töluverður munur er á piltum og stúlkum. 67 prósent stúlkna gátu í vor lesið sér til gagns en bara 59 prósent drengja. Tveir af hverjum fimm sjö ára drengjum í grunnskólum Reykjavíkur eru ófærir um að lesa sér til gagns, þótt þeir kunni að vera læsir eða geti stautað sig frá orði til orðs.

Þá kemur fram að mikill munur getur verið á milli skóla. Þannig getur frá 20 og upp í 25 prósent nemenda lesið sér til gagns í þeim þremur skólum þar sem staðan er verst. Í skólanum þar sem börnin stóðu best gátu 94 prósent lesið sér til gagns.

Fjallað var um skimunina á fundi Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur í gær. Í bókun lýsir ráðið yfir áhyggjum. „Mikilvægt er að fagskrifstofa sviðsins skoði vel með skólunum hvaða orsakir gætu legið hér að baki og hvað er til úrbóta,“ segir þar.



Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir, formaður Skóla- og frístundaráðs, áréttar þó að ávallt hafi verið sveiflur í lesskimun og að tilgangur hennar sé fyrst og fremst að finna börn sem þurfa á auknum stuðningi að halda í námi sínu. „Mikilvægast er að hver og einn skóli taki þessar niðurstöður og nýti til umbóta á hverjum stað,“ segir hún.

Oddný segir þegar unnið að því að auka samstarf á milli leik- og grunnskóla til þess að auka samfellu í lestrarkennslu á milli skólastiga. „Svo er þáttur heimilanna náttúrlega ótrúlega stór,“ segir Oddný. Börnin þurfi bæði stuðning og fyrirmyndir heima fyrir.

Um leið segir Oddný mikilvægt að skólarnir líti á skimanir sem þessa sem umbótatæki en ekki sem áfellisdóm. Margvíslegar ástæður geti legið að baki misjöfnum niðurstöðum á hverjum stað. 

„Og það er svo sem engin sérstök fylgni sem við sjáum í sveiflunni milli ára, þarna eru ofarlega skólar sem voru neðarlega í fyrra og öfugt.“

Á fundi Skóla- og frístundaráðs var jafnframt samþykkt tillaga sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, lagði fram fyrir hönd síns flokks og Vinstri grænna um að skólastjórum verði falið að kynna niðurstöður lesskimunarinnar bæði fyrir nemendum og foreldrum. Tillagan var samþykkt einróma. 

Kjartan segir vonir standa til þess að þótt ekki sé skemmtilegt fyrir skólastjóra að kynna laka niðurstöðu þá standi vonir til þess að með slíkum upplýsingum geti orðið til gagnrýnið samtal. 

„Slík skoðanaskipti geta verið uppbyggileg og hvetjandi á hverjum stað, bæði fyrir skólann og foreldra,“ segir hann. Allur gangur hafi hins vegar verið á því hvernig skólar hafi kynnt foreldrum niðurstöður lesskimunarinnar.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×