Innlent

Færri nálgunarbönn veitt á Suðurnesjum

Snærós Sindradóttir skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson hóf störf um áramót. Áður hafði hann verið sýslumaður á Selfossi.
Ólafur Helgi Kjartansson hóf störf um áramót. Áður hafði hann verið sýslumaður á Selfossi. fréttablaðið/daníel
Fórnarlömb heimilisofbeldis á Suðurnesjum hafa síður fengið samþykkt nálgunarbann eða brottvísun ofbeldismanns af heimili eftir að nýr lögreglustjóri tók við um síðustu áramót. Tölur sýna að þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir starfaði sem lögreglustjóri á Suðurnesjum var meirihluti beiðna brotaþola um slíkar aðgerðir samþykktur.

Það sem af er ári hafa beiðnir brotaþola um brottvísun ofbeldismanns af heimili, hina svokölluðu austurrísku leið, aldrei verið samþykktar. Þá hefur nálgunarbann aðeins tvisvar verið samþykkt. Fimm sinnum hefur því verið hafnað. 

Árið 2013, í tíð fyrri lögreglustjóra, voru níu nálgunarbönn samþykkt en þremur hafnað. Þá var alltaf samþykkt að fjarlægja ofbeldismann af heimili ef brotaþoli óskaði þess. 

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að þeim aðgerðum sem ráðist var í í tíð fyrri lögreglustjóra hafi verið áfram haldið í hans tíð. „Verklag og reglur hafa ekki breyst. Það hefur ekki verið slakað á þeim kröfum sem gerðar eru til þess að heimilisofbeldismálum sé fylgt eftir.“

Undir þetta tekur Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum. Hann segir ýmsar skýringar geti verið á því að nú séu hlutfallslega færri nálgunarbönn og brottvísanir samþykktar. 

„Þar á meðal er ein skýring sú að við höfum verið að læra á þetta kerfi og rákum okkur á það í upphafi að ef menn brjóta bannið þá þarf brotaþolinn að kæra það. Fólk áttaði sig á því að ef við vorum að standa í þessu þvert á vilja brotaþolans þá var úrræðið ónýtt, þá var ekki hægt að fylgja því eftir.“ 

Jóhannes segir að hluta af skýringunni megi rekja til þess að brotaþolar dragi stundum til baka beiðnir um nálgunarbönn eða brottvísanir. „Í einhverjum tilvikum var bara fallist á það hreinlega. Við getum ekki verið inni á heimilum fólks til að athuga öllum stundum hver er þar. Við lentum í ákveðnum vanda þarna. Núna erum við hreinlega ekki að fara fram með kröfur og höfnum kröfum í þeim tilvikum þar sem brotaþolinn er ekki alveg með sitt á hreinu,“ segir Jóhannes Jensson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×