Innlent

Faktorý lokar

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Haraldur Leví segir lokun Faktorý vera mikinn missi fyrir íslenskt tónlistarlíf.
Haraldur Leví segir lokun Faktorý vera mikinn missi fyrir íslenskt tónlistarlíf.
„Þetta er bara alveg glatað. Ég tala bæði sem tónlistarútgefandi og tónleikahaldari og þetta er mikill missir fyrir íslenskt tónlistarlíf. Við erum mjög leiðir yfir þessu, ekki síst vegna þess að staðurinn hefur alltaf staðið vel undir sér og verið rekinn af miklum metnaði,” segir Haraldur Leví Gunnarsson, viðburðastjóri og tónleikabókari á Faktorý, en staðurinn mun loka 11. ágúst næstkomandi.

Faktorý hefur verið starfræktur síðan um mitt sumar 2010, en lengi hefur legið í loftinu að hann þurfi að víkja fyrir hótelbyggingu í nýju deiliskipulagi. Nú er svo komið að staðurinn neyðist til að loka.

Haraldur segir þetta vera mikinn missi fyrir íslenskt tónlistarlíf. „Það má vel líkja þessu saman við brotthvarf Nasa. Það eru margir sem hafa byrjað sinn feril á þessum stöðum, til dæmis Retro Stefson og Of Monsters and Men. Það er engin tilviljum að Of Monsters héldu tónleikaröð hér í janúar til að þakka fyrir sig. Þetta eru þeirra rætur og maður spyr sig hvar þessar hljómsveitir væru í dag ef ekki væri fyrir Faktorý og Nasa,” segir Haraldur.

Haraldur segir ekki standa til að mótmæla niðurrifinu. „Það þýðir ekkert. Það er búið að vera niðurrifsleyfi á þessu húsi í nokkur ár og þeir byrja bara strax eftir að við lokum.”

Haraldur og félagar ætla sér þó að kveðja staðinn með stæl og fjölbreytt dagskrá verður þar alla daga fram að lokun. Nánari upplýsingar er að finna á Faktory.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×