Innlent

Fálkinn Illugi á batavegi eftir lýsisárás

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fálkinn Illugi í Mýrdal varð ófleygur eftir lýsisárás nokkurra fýla í Pétursey í gær en fálkinn ætlaði að fá sér fýl í svanginn. Ábúendurnir á bænum Eyjarhóli björguðu Illuga og ætla að sleppa honum næstu daga.

Fálkinn, sem er ungur fugl fékk strax nafnið Illugi enda varð hann illur þegar hann var fangaður og er ekkert mjög vel við heimilisfólkið á bænum. Mikill lýsisgrútur var á fuglinum þegar hann fannst ófleygur rétt við bæinn en hann lenti í árás við nokkra fýla, sem spúðu lýsi á hann eins og enginn væri morgundagurinn.  

Sindri á Eyjarhóli hafði strax samband við sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun þegar hann fann fuglinn og fékk ráðleggingu um hvernig besti væri að þrífa lýsisgrútinn. Ólafur Ingi Þórarinsson, pípulagningamaður var sérstakur aðstoðarmaður við þvottinn, sem fór fram í eldhúsinu á Eyjarhóli.

Illugi lét heyra vel í sér í baðinu, ekki síst þegar vængirnir voru þrifnir. Hann var síðan þurrkaður vel og vandlega í handklæði á eftir líkt og um ungabarn væri að ræða.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×