Innlent

Fangar fengu gervigrasvöll gefins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Til stendur að koma fyrir gervigrasvelli á Litla Hrauni. Mynd/ Rósa.
Til stendur að koma fyrir gervigrasvelli á Litla Hrauni. Mynd/ Rósa.
Fangelsið á Litla Hrauni hefur fengið rúmlega sjö milljóna króna styrk frá Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, til að kaupa gervigrasvöll. Í sunnlenska fréttablaðinu Dagskránni kemur fram að völlurinn sé kominn til landsins og bíði nú eftir því að verða settur upp. Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að gefa eftir námugjöld af sandi úr sandnámu við Eyrarbakka vegna verkefnisins. Stefnt er að því að taka völlinn í notkun í haust.

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins, segir í samtali við Vísi að málið hafi verið unnið í samstarfi við framkvæmdastjóra KSÍ „Við skoðuðum möguleika á því að við gætum fengið sparkvelli eins og verið var að setja upp um allt land og skoðuðum hvort KSÍ gæti hjálpað okkur," segir Margrét. Framkvæmdastjóri KSÍ hafi haft samband við UEFA og þeir gefið gervigrasið. „En það er ennþá að ég held í gámi á hafnarbakkanum," segir Margrét. Ástæðan sé sú að vinnan við að koma gervigrasinu fyrir kosti sitt og enn vanti fjórar til fimm milljónir í viðbót til þess að gera allt klárt.

Margrét segir að samvinna Litla Hrauns og KSÍ um þetta hafi staðið yfir í á annað ár. „Þetta er að miklu leyti til frumkvæði strákanna sem eru þarna. Þeirra sem sjá um knattspyrnu og leiki," segir Margrét. Margrét segir að mjög mikill knattspyrnuáhugi sé á Litla Hrauni. Útivist strákanna sé úti á velli og flestir taki þátt í henni.

Margrét segir að ekki sé gert ráð fyrir því á fjárlögum að gera þurfi íþróttavöll á Litla Hrauni en framkvæmdastjóri KSÍ sé að leita leiða við að ljúka við gerð gervigrasvallarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×