Innlent

Fangelsisstjórinn dæmdur í fangelsi

Geirmundur Vilhjálmsson 
Geirmundur Vilhjálmsson 
Geirmundur Vilhjálmsson, fyrrverandi fangelsisstjóri á Kvíabryggju, var í gær dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að draga sér fé og ýmis verðmæti sem tilheyrðu fangelsinu, samtals að andvirði ríflega 1,6 milljóna króna. Fimm mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir.

Geirmundur gekkst við um helmingi brotanna, til dæmis að hafa dregið sér tæpar 600 þúsund krónur og falið það með því að setja tilhæfulausa reikninga útgefna af verktakafyrirtæki í bókhald fangelsisins.

Öðrum brotum neitaði hann, til dæmis því að hafa selt bíl í eigu fangelsisins og stungið söluvirðinu, 250 þúsund krónum, í vasann. Hann hélt því fram að hann hefði lagt peningana fyrir og ætlað að kaupa fyrir þá kanínur og kindur til að auka fjölbreytileika á Kvíabryggju. Hann var engu að síður sakfelldur fyrir alla ákæruliði.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands segir að starfsmenn og jafnvel fangar á Kvíabryggju hafi almennt haft frjálslegan aðgang og afnot af tækjum og tólum í eigu fangelsisins, með því hafi ekkert eftirlit verið eða skráning og augljós hætta á að munir gætu farið forgörðum. „Á þessu bar ákærði, sem var forstöðumaður stofnunarinnar, ábyrgð og ber af því allan halla að málefni fangelsisins voru í þessu efni í algerum ólestri.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×