Skoðun

Fátækt og mannréttindi – opið bréf

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Kæri Jón.

Við hjónin skrifum þér vegna þess að þú hefur látið þig varða um mannréttindi. Þú hefur gerst málsvari hópa sem eiga sér ýmist marga eða fáa málsvara og viljað beita áhrifum þínum til þess að láta gott af þér leiða. Við viljum vekja athygli þína á brýnu mannréttindamáli og kalla eftir liðsinni þínu. Við vitum að um þig getur munað.

Haft er eftir Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að „hvarvetna sem við forðum einni sál frá lífi í fátækt verjum við mannréttindi. Hvenær sem okkur mistekst þetta bregðumst við mannréttindum". Sameinuðu þjóðirnar hafa vakið athygli á því að fátækt er einn alvarlegasti mannréttindavandi samtímans. Áhrif fátæktar á konur eru sérstakt umhugsunarefni, eins og biskup Íslands kynntist í ferð sinni til Afríku á dögunum.

Við höfum séð það hér á Íslandi, fyrir og eftir hrun, hvernig bilið milli ríkra og fátækra eykst. Hvernig völdum er beitt þannig að þau sem eiga lítið eignast minna og þau sem eiga mikið eignast meira. Þetta gengur ekki lengur. Átaks er þörf og það þarf að leiða til hugarfarsbreytingar.

Við viljum hvetja til samvinnu stofnana sem hafa látið sig varða þessi mál. Þar nefnum við sérstaklega trúfélögin. Þjóðkirkjan sýnir von í verki í þjónustu Hjálparstarfs kirkjunnar og presta um allt land. Hjálparstarfið hefur verið lykilstofnun í neyðarhjálp og uppbyggingu eftir hrun.

Samhjálp og Hjálpræðisherinn sinna líka fólki í neyð og gera það vel.

Nýlega lýsti svo nýkjörni páfinn Frans því yfir að hann vildi gera rómversk-kaþólsku kirkjuna að fátækri kirkju sem starfar fyrir fátæka. Þar með hefur sett hann baráttuna gegn fátækt í heiminum á dagskrá.

Við þurfum að taka höndum saman til að vinna bug á aðkallandi vanda. Við skulum byrja heima og þar geta borgin okkar og trúfélögin gegnt lykilhlutverki. Ertu með?




Skoðun

Sjá meira


×