Bakþankar

Feitar og fallegar?

Friðrika Benónýs skrifar
„Þú ert að dæma þær eftir útliti þeirra," sagði fréttamaður Fox-sjónvarpsstöðvarinnar andaktugur við næringarfræðinginn Keren Gilbert í umræðum um tvær þybbnar söngkonur á Grammy-verðlaunahátíðinni fyrir skemmstu. Í orðum hans lá að það væri nú aldeilis ekki við hæfi að dæma frábærar söngkonur eftir útlitinu. Fallegt af honum svo langt sem það náði, en var einhver söngkona á Grammy-hátíðinni ekki dæmd eftir útliti sínu? Áttu þær Adele og Kelly Clarkson að vera undanþegnar slíkum dómum einungis vegna þess að þær eru í þykkari kantinum?

Gilbert margítrekaði að báðar væru þær glæsilegar og hæfileikaríkar konur en hins vegar vildi hún vara við því að horfa framhjá fitu þeirra þar sem offita væri alvarlegt heilbrigðisvandamál og það að senda ungum stúlkum þau skilaboð að það væri allt í lagi að vera feitar væri alveg jafnhættulegt og dýrkun á horgrindum. Offita er alvarlegra vandamál, drepur fleiri og kostar þjóðfélagið margfalt meira en lystarstol og lotugræðgi. Þurfum við ekki að geta rætt það vandamál án þess að vera sökuð um útlitsdýrkun og fordóma?

Sama dag og Fox sendi út umrætt viðtal voru breskir fjölmiðlar fullir af ramakveinum lækna vegna vaxandi offitu bresku þjóðarinnar. Þeir krefjast tafarlausra og róttækra aðgerða til að reyna að stemma stigu við offitufaraldrinum sem kostar þjóðarbúið rúma 5 milljarða punda árlega, veldur heilsuleysi og óhamingju æ fleiri og er orðinn stærri orsakavaldur hjarta- og æðasjúkdóma en reykingar, auk þess að valda fjölda annarra sjúkdóma bæði til líkama og sálar. Niðurstaða læknanna er afgerandi: það er ekki krúttlegt að vera feitur, það er lífshættulegt.

Vissulega er það óréttlátt og óásættanlegt að fólk sitji undir svívirðingum og finnist sér mismunað vegna útlits síns, en umræðan um hætturnar sem offitu fylgja má ekki kafna í pólitískri rétthugsun og ásökunum um útlitsdýrkun. Hér er svo miklu meira í húfi en hvort þetta eða hitt útlitið samræmist viðteknum viðmiðum um fegurð á hverjum tíma. Normalísering fitunnar sem smátt og smátt hefur verið að smeygja sér inn í þjóðfélagsumræðuna undanfarin ár er ekki af hinu góða, ekkert frekar en áróðurinn um það að reykingar væru töff var á sínum tíma. Það þarf að breyta viðhorfunum gagnvart fituvæðingu hins vestræna heims á sama hátt og viðhorfinu til reykinga var breytt. Og það gerist ekki með því að hlaupa upp til handa og fóta með ásökunum og upphrópunum í hvert sinn sem athyglinni er beint að því að einhver sé of feitur.






×