Innlent

Fékk ekki að taka þátt í pítsuveislu á öskudag

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Ekki er gert ráð fyrir því að börn geti keypt stakar máltíðir þegar mikið liggur við. Fréttablaðið/Stefán
Ekki er gert ráð fyrir því að börn geti keypt stakar máltíðir þegar mikið liggur við. Fréttablaðið/Stefán
Ellefu ára stúlku var neitað um að taka þátt í pítsuveislu í Fellaskóla þar sem hún er ekki í mataráskrift hjá Reykjavíkurborg. Móðir stúlkunnar er af erlendu bergi brotin og sendir hana alla jafna með nesti í skólann. Hún vildi gera á því undantekningu og leyfa henni að taka þátt í hátíðahöldunum á öskudag. Pítsur voru á boðstólum í tilefni dagsins.

Stúlkan fór með fimm hundruð krónur í skólann og spurði hvort hún mætti kaupa eina pítsusneið. Henni var neitað um það í mötuneytinu. Hún ákvað að fara og spyrja skólastjórann, Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur, hvort ekki væri hægt að gera undantekningu bara þennan dag og leyfa henni að kaupa sneiðina en fékk aftur neitun. Sigurlaug Hrund staðfesti þetta og sagði aðeins nemendur sem eru í mataráskrift borði mat frá mötuneytinu.

Allir nemendur í grunnskólum borgarinnar hafa aðgang að hádegis­mat í skólanum. Mataráskrift kostar það sama í öllum skólum borgarinnar og fyrirkomulagið er það sama í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Máltíðin kostar 355 krónur en ekki er sveigjanleiki í kerfinu til að borga stakar máltíðir og innheimt er jafnaðargjald miðað við 20 daga í mánuði, eða 7.100 krónur.

Móðirin segist ekki átta sig á reglum um áskrift og talar ekki íslensku. Hún sagðist þó spyrja sig hvort ekki væri hægt að líta fram hjá stífum reglum af góðvild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×