Spænski maðurinn sem læknar græddu nýtt andlit á í mars kom í dag opinberlega fram í fyrsta sinn eftir aðgerðina.
Aðeins var greint frá fornafni mannsins, Oscar. Hann er 31 árs gamall og lenti í skotslysi fyrir fimm árum síðan. Síðan hefur hann ekki getað andað, gleypt eða talað án hjálpar.
Oscar var nokkuð brattur á blaðamannafundinum og þakkaði fjölskyldu líffæragjafans og læknunum í Madríd, sem græddu andlit á hann allt frá hárlínu og niður á háls. Hann á enn erfitt með tal og verður í meðferð í marga mánuði vegna þess.
Tíu sinnum hefur hluti andlits verið græddur á fólk, en þetta er í fyrsta skipti sem það er gert með allt andlitið. 30 sérfræðingar tóku þátt í aðgerðinni, sem tók heilan sólahring. Hún þykir mikið afrek.
Læknarnir segja að Oscar muni ná tökum á allt að 90% andlitshreyfinga.
Fékk nýtt andlit fyrstur manna
