Innlent

Fékk týndan síma aftur og flottar myndir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Ferðamaður hér á landi segir frá því á síðunni Reddit að hann hafi týnt símanum sínum, eða honum hafi verið stolið, í Reykjavík. Þremur dögum seinna hafði hann fengið skilaboð á Facebook frá stúlku sem sagðist vera með símann. Auk þess að koma símanum aftur til eiganda síns, tók stúlkan myndir á símann.

Hann var þó á ferð um landið og gat ekki nálgast hann fyrr en nokkrum dögum seinna þegar hann kom aftur til Reykjavíkur. Þá sendi hann stúlkunni skilaboð og segir að hún hafi verið komin til hans fimmtán mínútum seinna með símann.

„Það er gott að vita af því að það er enn gott fólk í heiminum. Hún lagði það á sig að koma símanum til mín auk þess sem hún skildi eftir nokkrar flottar myndir á símanum,“ skrifar ferðamaðurinn á Reddit. Þar má einnig sjá eina af myndunum sem stúlkan tók á símann. Myndin var tekin við Reykjavíkurtjörn að nóttu til.

Nokkur umræða myndast um Ísland og einhverjir tala um hvað Ísland sé fallegt og öruggt land. Þá er fólk sem er á leið hingað að spyrjast fyrir um hvað sé best að taka sér fyrir hendur þegar til Íslands er komið.

Hér má sjá myndina sem netverjann grunar að hafi verið tekin um kl. 03 eða 04 við Reykjavíkurtjörn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×