Innlent

Félag múslima mun eitt fá moskulóðina

Páll Hjaltason Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur er ósammála því mati mannréttindastjóra borgarinnar að úthluta beri báðum félögum ókeypis lóð undir mosku fái annað félagið slíka lóð.
Páll Hjaltason Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur er ósammála því mati mannréttindastjóra borgarinnar að úthluta beri báðum félögum ókeypis lóð undir mosku fái annað félagið slíka lóð.

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að Félag múslima muni fá lóð undir mosku frá borginni en ekki Menningarsetur múslima sem einnig sækir um lóð.

„Í skipulagsvinnunni er ég að vinna eftir því að samþykkt var fyrir tíu árum að lóð yrði afgreidd til Félags múslima undir mosku ásamt þremur öðrum trúfélögum. Mér finnst það bara ekki í lagi að Reykjavíkurborg svíki loforð í tíu ár,“ segir Páll Hjaltason. „Mig langar líka að benda á að kristin trúfélög fá ekki lóðir, nema þjóðkirkjan sem við höfum lögbundnar skyldur við. Enda er ekki eins og borgin sé full af kirkjulóðum sem við þurfum að koma út.“

Páll segir það hins vegar vera sína skoðun sem formaður skipulagsráðs að „fallegasta leiðin“ í málinu væri sú að menn ynnu saman og að moskan yrði byggð í sem mestum friði og að sem flestir múslimar notuðu hana.

Varðandi umsókn Menn­ingar­seturs múslima segir Páll að til þess að hún fái „virkni“ þurfi hún að fara fyrir borgarráð. Hann muni ekki finna lóð fyrir söfnuðinn á skipulagslegum forsendum.

Karim Askari

Karim Askari, varaformaður Menningarseturs múslima, segir aðalatriðið að útveguð verði lóð undir mosku fyrir alla múslima á Íslandi. „Félag múslima og Menningarsetrið fylgja sömu trú og þess vegna er í lagi að það verði aðeins ein lóð,“ segir Karim, sem kveðst vilja að mynduð verði nefnd með fulltrúum allra múslima til að annast um moskuna.

Karim segir að þó að það hafi verið Félag múslima sem sótti upphaflega um lóðina hafi það einnig verið gert í nafni fólks sem síðan hafi gengið til liðs við Menningarsetrið. Munur­inn á félögunum sé fyrst og fremst sá að Menningarsetrið sé lýðræðislegt en í Félagi múslima sitji ævikjörið öldungaráð. Þess vegna sætti menn sig illa við að Félag múslima sitji eitt að lóðinni. „Við þurfum ekki lóð í nafni Félags múslima eða Menningarseturins heldur í nafni allra múslima,“ segir Karim, sem kveður málið verða rætt nánar á ársfundi Menningar­setursins í lok ársins.

Anna Kristinsdóttir

Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Önnu Kristinsdóttur, mannréttindastjóra Reykjavíkur­borgar, að jafnvel þótt lóðir borgar­innar væru takmörkuð gæði væri ekki hægt að ganga framhjá öðru félaginu fengi hitt lóð úthlutað. Formaður skipulagsráðs er ósammála þessu. „Það er ekkert sjálfgefið að úthluta svona lóðum,“ segir Páll Hjaltason. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×