Innlent

Félögum múslima gert að sameinast um eina mosku

Hluti af vandanum er að borgin á ekki margar hentugar lóðir fyrir moskur, segir formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.
Hluti af vandanum er að borgin á ekki margar hentugar lóðir fyrir moskur, segir formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.
Tvö félög múslima vilja fá lóð undir mosku í Reykjavík. Borgaryfirvöld hyggjast aðeins útvega eina lóð fyrir mosku og vilja að félögin sameinist um bænahúsið.

„Við erum náttúrlega ekki að fara að úthluta tveimur lóðum fyrir moskur strax og finnst eðlilegt að þeir geti sameinast um að byggja sér mosku," segir Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.

Það eru Félag múslima og hið nýja Menningarsetur múslima á Íslandi sem óska eftir lóðum fyrir mosku. Páll bendir á að Félag múslima hafi nú í tíu ár sótt um lóð.

„Það hefur verið alls kyns tregða á því. Hluti af vandanum er að Reykjavíkurborg liggur ekki á mörgum lóðum sem henta fyrir moskur og þannig er enn þó að það sé verið að höggva á þann hnút," segir Páll, sem kveðst búast við að fljótlega á komandi ári verði málið afgreitt á einn eða annan veg, með synjun eða úthlutun.

Einar Páll Tamimi, lögmaður Félags múslima, segir kröfu borgaryfirvalda stangast á við stjórnsýslulög. „Borgaryfirvöld hafa úthlutað kristnum söfnuðum lóðum til byggingar tilbeiðsluhúsa án þess að gera kröfu um að mismunandi kristin trúfélög sameinist um nýtingu slíkra lóða, og ljóst er að ekki verða með réttu gerðar aðrar kröfur til múslimskra trúfélaga heldur en kristinna," segir í bréfi lögmannsins til skipulags­yfirvalda.

Í lóðaumsókn Menningarseturs múslima sem keypti á dögunum tónlistarhúsið Ými virðist ranglega litið svo að múslimum hafi þegar verið úthlutað lóð fyrir mosku. Þar segir að formaður Félags múslima, Salmann Tamimi, geti ekki sætt sig við að bæði félögin hafi fengið lóðina.

„Að sjálfsögðu fer lóðin til allra múslima á Íslandi en ekki einungis hluta þeirra og þetta hefur viðkomandi þótt erfitt að kyngja," skrifar Karim Askari, varaformaður Menningarseturs múslima, í lóða­umsókn þess félags. Ágreiningur hefur verið milli hópanna tveggja. - gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×