Innlent

Fengu skrúfu í pizzuna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vinkonunum Katrínu Ásmundsdóttur og Vigdísi Hlíf Jóhönnudóttur brá heldur betur í brún þegar þær fundu skrúfu í pizzu sem þær pöntuðu á Saffran.
Vinkonunum Katrínu Ásmundsdóttur og Vigdísi Hlíf Jóhönnudóttur brá heldur betur í brún þegar þær fundu skrúfu í pizzu sem þær pöntuðu á Saffran. MYND/VIGDÍS

„Þetta er hið versta mál og við erum að reyna eftir bestu getu að finna út úr þessu. Okkur þykir þetta alveg ótrúlega leiðinlegt,“ segir Jens Oberdorfer, vaktstjóri í Saffran Glæsbæ, en tvær ungar konur urðu fyrir þeirri leiðinlegu reynslu að finna skrúfu í pizzu þar í gærkvöldi.

„Okkur brá heldur betur í brún og misstum matarlystina um leið. Við vorum bara búnar með fjóra bita eða svo þegar ég leit niður og skrúfan kom í ljós,“ segir Katrín Ásmundsdóttir sem fékk skrúfu í pizzuna sína á Saffran. „Þetta var ekki beint girnilegt en ég er alls ekkert fúl eða neitt svoleiðis. Ég er bara fegin að hafa ekki bitið í skrúfuna.“ Þær vinkonur voru þó enn hungraðar eftir ferðina afdrifaríku á Saffran. „Við vorum ennþá svangar eftir þetta svo við skelltum okkur bara á Subway í heimleiðinni.“

Jens segist vera búinn að skanna eldhúsið hátt og lágt til að athuga hvort að einhverstaðar vanti skrúfu sem gæti á einhvern hátt hafa dottið í hráefnið. „Ég hef ekki fundið neitt og bara hreinlega skil þetta ekki.Ég hef unnið hér í fjögur ár og hvorki fyrr né síðar hefur eitthvað þessu líkt komið upp á. Auðvitað á svona lagað ekki að gerast á veitingastöðum.“

Katrín á inni ókeypis máltíð og eftirrétt fyrir tvo næst þegar hún fer á Saffran. Aðspurð segir hún líklegt að hún nýti sér það þrátt fyrir atvikið í gær.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×