Handbolti

Fer Aron ekki til London?

Guðjón Guðmundsson skrifar
Nordicphotos/Bongarts
Nú þegar sex dagar eru í að Ólympíuleikarnir í London verða settir lítur út fyrir að einn efnilegasti handknattleiksmaður heims og einn sterkasti leikmaður íslenska landsliðsins verði fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Aron Pálmarsson hefur kennt sér meins í hné síðustu vikur og eftir Frakklandsmótið um síðustu helgi varð ljóst að hann þyrfti að fara í nákvæmari skoðun og myndatöku sem framkvæmd var af læknateymi íslenska landsliðsins.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar munu læknar íslenska landsliðsins hafa talið sig geta læknað meinið að því marki að leikmaðurinn gæti tekið þátt í leikjum íslenska landsliðsins á Ólymíuleikunum í London.

Við þetta munu hins vegar forráðamenn Kiel, sem Aron leikur með, ekki hafa sætt sig við og hafa kallað leikmanninn til læknisskoðunar í Þýskalandi. Aron mun fara til Þýskalands á morgun, sunnudag.

Málið er ekki síst undarlegt fyrir þær sakir að svo virðist sem enginn geti tekið ákvörðun um það hver eigi að hafa lokaorðið varðandi meiðsli leikmannsins.

Það vakti athygli á landsleiknum gegn Argentínumönnum í Hafnarfirði í dag að enginn af forystumönnum handknattleikssambandsins var sjáanlegur. Formaður HSÍ var ekki viðstaddur, formaður landsliðsnefndar ekki sjáanlegur og framkvæmdastjóri sambandsins löglega afsakaður enda í sumarfríi.

Það er hins vegar undarlegt að nú þegar sex dagar eru í leikana að ekki liggi ljóst fyrir hvort leikmaðurinn geti leikið eða ekki. Það var ljóst fyrir Frakklandsförina að leikmaðurinn kenndi sér meins og því virðist sem menn séu að vinna verkið á síðustu stundu og í sjálfu sér fallnir á tíma.

Svo virðist sem móðurfélag leikmannsins, Kiel í Þýskalandi, hafi lokaorðið og þykir forráðamönnum liðsins leikmaðurinn ekki nægilega góður til þess að fara í gegnum þá meðferð sem í boði er hjá íslenska landsliðinu. Er því ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að leikmaðurinn fari ekki til London.

Það yrði að sönnu mikið áfall fyrir íslenska landsliðið í handbolta að vera án Arons Pálmarssonar og myndi veikja íslenska liðið til mikilla muna. Það hlýtur að vera óþolandi staða fyrir landsliðsþjálfarann í handknattleik að þurfa að standa einn og svara fyrir það hver eigi að hafa lokorðið hvort leikmaðurinn sjálfur gangi heill til skógar, geti spilað.

Hver á að taka ákvörðunina? Leikmaðurinn? Landsliðsþjálfarinn? Stjórn Handknattleikssambandins? Eða Kiel?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×