Skoðun

Ferðaþjónustan sameinist gegn kynferðisofbeldi á börnum

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Öll börn heimsins eiga rétt á vernd gegn kynferðislegu ofbeldi, þau eiga rétt á vernd gegn hvers kyns kynferðislegu hátterni, vændi og klámi. Slíkt er tilgreint í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í íslenskum lögum.

Fyrr á þessu ári var samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun fullgiltur á Íslandi og samhliða var hegningarlögunum breytt. Ein af þeim breytingum er að Íslendingur sem verður uppvís að kynferðislegu samneyti við barn í öðru landi getur nú verið dæmdur fyrir það á Íslandi samkvæmt íslenskum lögum. Þetta á við jafnvel þótt lög þess lands banni ekki kynferðislegt samneyti við börn. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að einstaklingar eru börn til 18 ára aldurs.

Á hverju ári leiðast 1-2 milljónir barna í heiminum út í vændi vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna. Þau eru í raun beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi, til dæmis af ferðamönnum. Í kjölfar alþjóðavæðingar og auðveldari ferðamáta hefur kynferðisleg misnotkun í tengslum við ferðaþjónustu aukist til muna. Ferðamennirnir eru yfirleitt frá Vesturlöndum og ferðast til þróunarlanda eða landa þar sem efnahagur og aðstæður eru verri en í heimalandinu.

Þeir sem leggja upp í utanferðir í þeim tilgangi að stunda kynferðisofbeldi gagnvart börnum nýta sér neyð barnanna. Þessi börn búa yfirleitt við fátækt og erfiðar aðstæður og bera ekki ábyrgð á þeim aðstæðum og því ofbeldi sem þau verða fyrir. Þau eru gjarnan fórnarlömb mansals og hinn fullorðni getur aldrei skýlt sér á bak við samþykki barnsins.

Siðareglur ferðaþjónustuaðila

Fjöldi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja hefur, í samstarfi við frjáls félagasamtök á borð við Save the Children, gert og undirritað siðareglur um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun í ferðaþjónustu. Þar með hafa þau lofað að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir slíkt. Ýmsar ferðaskrifstofur á Íslandi selja ferðir til staða sem þekktir eru fyrir mansal á börnum, þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi telja mjög mikilvægt að íslenskir aðilar í ferðaþjónustu geri og undirriti siðareglur og taki þannig þátt í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Vitundarvakning meðal ferðamanna er einnig mikilvæg. Því væri æskilegt að á vefsíðum ferðaskrifstofa, í bæklingum og/eða með ferðagögnum fylgdu leiðbeiningar til ferðamanna um ábyrga ferðamennsku og hvað þeir eiga að gera verði þeir varir við kynferðislegt ofbeldi á börnum í ferðum sínum. Ferðamenn eiga að tilkynna slíkt til lögregluyfirvalda á staðnum, til fararstjóra eða ferðaskrifstofu. Jafnframt er mikilvægt að fórnarlömbunum sé veitt aðstoð af hálfu fagaðila. Við getum ekki sætt okkur við að ferðamenn komist upp með að beita börn sem búa við fátækt og erfiðar aðstæður kynferðisofbeldi. Með markvissri stefnu og samstilltu átaki væri hægt að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum í mun meiri mæli.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi óska eftir samstarfi við íslenska ferðaþjónustuaðila um að innleiða siðareglur um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi af hálfu ferðamanna. Þannig sýnum við samfélagslega ábyrgð og gefum skýr skilaboð um að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði ekki látið óátalið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×