Innlent

Ferðaþjónustuaðili kærður fyrir akstur utan vega

Hvolsvöllur.
Hvolsvöllur.
Á fimmtudag í síðustu viku var ferðaþjónustuaðili á mikið breyttri hópbifreið með 5 erlenda ferðamenn staðinn að utanvegaakstri í og við Skógaá samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli.

Ökumaðurinn lenti í vandræðum við að aka upp úr ánni, hjólbarði á bifreið hans hafði affelgast og þurfti hann því að leita sér aðstoðar. Ökumaðurinn hefur verið kærður fyrir athæfið og má búast við sekt í framhaldi þess.

Í liðinni viku hefur færð á vegum í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli verið með eindæmum, mikil ófærð og gríðarleg hálka hefur einkennt vegi og gert ökumönnum erfitt fyrir að komast leiðar sinnar og margir þurft á aðstoð að halda þegar lengra hefur ekki verið komist.

Vanmat ökumanna á aðstæðum, of hraður akstur miðað við aðstæður og illa búnar bifreiðar eru aðal orsökin og skýrir vandræði ökumanna.

Útlit er fyrir umhleypingar næstu daga og má búast við áframhaldandi hálku og slæmri færð. Lögreglan á Hvolsvelli hvetur ökumenn til þess að huga að búnaði bifreiða sinna og fylgjast með veðurspám og færð, svo sem á vefsvæðum Veðurstofu Íslands www.vedur.is og svo á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×