Innlent

Fimmtán þúsund femínistar funda í Malmö

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Meðal þeirra sem tala á ráðstefnunni eru Sofi Oksanen ritöhfundur, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Meðal þeirra sem tala á ráðstefnunni eru Sofi Oksanen ritöhfundur, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti íslands, mun tala á norrænu kvenna- og jafnréttisráðstefnunni Nordiskt Forum, sem haldin verður í Malmö dagana 12. til 15. júní á næsta ári.

Ráðstefnan verður fjölmennasta ráðstefna femínista um árabil, en búist er við allt að fimmtán þúsund gestum á ráðstefnuna. Hún er haldin að frumkvæði norrænna kvennahreyfinga og segir í tilkynningu að markmið hennar sé taka púlsinn á stöðu jafnréttismála í dag og leggja línurnar fyrir baráttu morgundagsins.

Meðal þeirra sem tala á ráðstefnunni eru auk Vigdísar, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Sofi Oksanen rithöfundur, Sanne Søndergaard grínisti, Ritt Bjerregaad fyrrverandi ráðherra, Nadje Al-Ali, rithöfundur og prófessor, Nina Bjørk, blaðamaður og rithöfundur, og Gail Dines prófessor.

Síðast var norræn kvennaráðstefna haldin árið 1994 í Turku í Finnlandi og þá fjölmenntu íslenskar konur og búast skipuleggjendur við því að svo verði einnig nú.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga, héldum fjölmennan kynningarfund á kvennaheimilinu Hallveigarstöðum nýverið, fáum mikið af fyrirspurnum og nú hvetjum við íslenskar konur til að skrá sig sem fyrst og taka þátt í þessum sögulega viðburði,“ segir Hildur Helga Gísladóttir, framkvæmdastýra Kvenfélagasambands Íslands, sem setið hefur í stýrhópi ráðstefnunnar fyrir hönd Íslands.

„Ráðstefnan markar tímamót í sögu norrænna kvennahreyfinganna en þetta er í fyrsta sinn sem þær skipuleggja svo umfangsmikla ráðstefnu. Og það er mjög mikill áhugi á því að taka þátt í henni á öllum Norðurlöndunum, bæði hjá opinberum aðilum, frjálsum félagasamtökum og einstaklingum,“ segir Hildur Helga, framkvæmdastýra sambandsins.

Í tilkynningunni segir jafnframt að SÞ hafi ekki haldið ráðstefnu um málefni kvenna síðan í Peking árið 1995. Ástæða þess sé bakslag í jafnréttisbaráttu heimsins og ótti við að markmið sem þá voru uppfyllt séu í hættu verði opnað á samningaumleitanir um þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×