Viðskipti innlent

Fimmti hver Íslendingur með mikla vinnufíkn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Vinnufíkn Fimmti hver Íslendingur glímir við vinnufíkn, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Mikil fylgni er milli vinnufíknar og kulnunar í starfi.Nordicphotos/Getty
Vinnufíkn Fimmti hver Íslendingur glímir við vinnufíkn, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Mikil fylgni er milli vinnufíknar og kulnunar í starfi.Nordicphotos/Getty
Í nýrri rannsókn sem Capacent gerði, þar sem vinnufíkn Íslendinga var mæld, kom í ljós að 22 prósent starfandi Íslendinga eru með mikla vinnufíkn. 

„Vinnufíkn er óstjórnleg þörf eða árátta til að vinna mikið. Þetta snýst ekki um að viðkomandi sé svona ánægður í vinnunni eða það sé svona gaman, heldur er það innri þörf sem hvetur hann áfram til að vinna öllum stundum,“ segir Hildur Jóna Bergþórsdóttir, vinnusálfræðingur og ráðgjafi hjá Capacent.

Í rannsókninni kemur einnig fram að Íslendingar vinna að meðaltali álíka langa vinnuviku og aðrar þjóðir. Einnig að karlar vinna áberandi lengri vinnuviku en konur og segir Hildur muninn vera mun meiri en hún bjóst við.

„En vinnuvikan er almennt löng. 64,7 prósent starfsmanna vinna að meðaltali meira en 40 stunda vinnuviku, sem telst full vinna. Það er líka athyglisvert að 18,3 prósent starfandi fólks vinna meira en fimmtíu stundir á viku. Það eru tveir yfirvinnutímar á dag, en þetta er sambærilegt við aðrar þjóðir og kollvarpar þeirri mýtu að Íslendingar vinni miklu meira en aðrir,“ segir Hildur.

Hildur Jóna Bergþórsdóttir
Vinnufíklar brenna út 

Hildur Jóna Bergþórsdóttir segir niðurstöðurnar styðja við þær kenningar sem hafa verið gerðar um vinnufíkn og sýni fram á sterk tengsl á milli vinnufíknar og kulnunar í starfi. 

„Sumir halda því fram að vinnufíkn sé góð því það þýði að starfsmaðurinn sé duglegur, taki að sér fleiri verkefni og sé með fullkomnunaráráttu. Kenningar um vinnufíkn hafa ýtt undir þessa skoðun. En með okkar niðurstöðum sýnum við fram á að vinnufíkn er ekki góð og það á ekki að ýta undir það hjá starfsfólki að vera öllum stundum í vinnunni,“ segir Hildur. 

Hún segir einkenni vinnufíkla vera að þeir noti vinnuna sem afsökun til að þurfa ekki að sinna einkalífi sínu og flýja þannig fjölskyldu og vini. Þeir eru með áráttu til að vinna sífellt meira, hafa mörg járn í eldinum og skapa sér álag í starfinu. Þeir fá kvíða ef þeir eru ekki í vinnunni, vinna oft lengur en aðrir og þurfa sífellt staðfestingu á eigin virði. 

„En þeir eru ekkert endilega betri starfsmenn. Samkvæmt niðurstöðum okkar fá vinnufíklar sjaldnar hrós eða viðurkenningu í starfi sínu. Helgun í starfi einkennir góða starfsmenn. Þeir eru með háa framleiðni og standa sig vel án þess að vera sífellt í vinnunni. Vinnufíklar falla ekki endilega undir þann hóp.“

Hildur segir mikilvægt fyrir helgun í starfi og að ná fram því besta í starfsmanni sé að tryggja að starfsmaður haldi jafnvægi á milli einkalífs og starfsins. 



„Því kemur fylgni á milli vinnufíknar og kulnunar í starfi ekki á óvart. Þegar fólk kulnar eða brennur út í starfi þá verður það bjargarlaust. Það veit ekki á hvaða verkefnum það á að byrja og veit ekki til hvers er ætlast af þeim.“ 



Hildur mun kynna niðurstöður rannsóknarinnar á ráðstefnu um vinnufíkn á miðvikudag. Rannsóknin var byggð á mælitæki á vinnufíkn sem einn fremsti sérfræðingur í Evrópu á þessu sviði, Hollendingurinn Wilmar Schaufeli, bjó til. Hann er heiðursgestur ráðstefnunnar og mun þar fjalla um rannsóknir sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×