Innlent

Fischer grafinn upp á næstu dögum

Aðstandendur og vinir Bobby Fischers við leiði hans í mars 2008. Lengst til hægri sést skákmeistarinn Boris Spassky. Mynd/Pjetur
Aðstandendur og vinir Bobby Fischers við leiði hans í mars 2008. Lengst til hægri sést skákmeistarinn Boris Spassky. Mynd/Pjetur
Undirbúningur þess að grafa upp lík skákmeistarans Bobby Fischers er hafinn. Tjaldað verður yfir gröfina meðan hún verður opnuð og lífsýni sótt. Þetta er gert til sannreyna kröfur í faðernismáli gegn dánarbúi Fischers.

Verkið verður unnið undir stjórn sýslumannsins í Árnessýslu, Ólafs Helga Kjartanssonar, en sjálfur mætti hann ásamt lögreglu fyrr í vikunni í kirkjugarðinn að Laugardælum til að kanna aðstæður. Fréttir af þessum áformum hafa orðið til þess að auka enn heimsóknir að leiðinu en allt frá því Fischer var grafinn þarna hafa gestakomur verið tíðar.

„Það er náttúrulega misjafnt. Stundum kemur enginn og stundum koma tvær til þrjár rútur á dag," segir Haraldur Þórarinsson, staðarhaldari á Laugardælum, og bætir við að eftir að fréttir bárust af því að grafa ætti hann upp hafi fleiri Íslendingar komið að leiðinu.

Haraldur tók sjálfur þátt í að jarðsetja Fischer með leynd í janúar 2008. Hann segir ekki alla hrifna af því að friðhelgi grafreitsins verði raskað.

„Það hefur verið talað um að menn séu nokkuð friðhelgir þegar þeir eru komnir inn í kirkjugarðinn. Mér finnst að það þurfi ríkar ástæður til að grafa menn upp en svona er þetta og það verður að hafa sinn gang," segir Haraldur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er verkáætlun farin að mótast. Gert er ráð fyrir að tjaldað verði yfir leiðið og að auk sýslumanns verði viðstaddir sóknarprestur, læknir, réttarmeinafræðingur, lögmenn og lögreglumenn sem munu girða svæðið af. Ekki er talin þörf á að flytja líkið af staðnum heldur er stefnt að því að lífsýni verður náð undir tjaldinu og vonast til að það taki innan við tvær klukkustundir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×