Innlent

Fiskveiðarnar þurfi ekki að verða hindrun

Evrópuþingmaðurinn Christian Dan Preda segist vongóður um að Ísland og ESB nái samkomulagi um fiskveiðimál.
Evrópuþingmaðurinn Christian Dan Preda segist vongóður um að Ísland og ESB nái samkomulagi um fiskveiðimál. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er bjartsýnn á að viðræður um fiskveiðimál geti skilað hagstæðri niðurstöðu fyrir bæði Ísland og Evrópusambandið,“ segir Evrópuþingmaðurinn Christian Dan Preda í samtali við Fréttablaðið.

Dan Preda, sem er í forsvari hjá Evrópuþinginu í málefnum sem varða aðildarumsókn Íslands, er staddur hér á landi vegna fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

Hann segist byggja bjartsýni sína á því að allt sé til staðar til þess að uppbyggilegar viðræður geti átt sér stað.

„ESB hefur á að skipa góðu samningaliði og íslensku samningamennirnir eru sömuleiðis mjög færir á sínu sviði. Svo eru báðir aðilar með mikla reynslu og þekkingu á sviði fiskveiða og þannig erum við með kjöraðstæður til að ná samkomulagi milli aðilanna.“

Dan Preda, segir að gagnkvæmir hagsmunir Íslands og ESB ættu að tryggja opnar viðræður þó að í almennri umræðu beggja vegna borðsins sé jafnan gert ráð fyrir að komandi viðræður um fiskveiðar verði hvað erfiðasti hjallurinn í aðildarviðræðunum.

„Þetta er auðvitað veigamikið mál fyrir bæði Ísland og ESB og ég skil hvers vegna umræðan er eins og hún er. Hins vegar sé ég ekki hvers vegna við ættum ekki að geta náð góðu samkomulagi.“

Enn hafa samningaviðræður um fiskveiðar ekki hafist, en Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, sagði í svari við spurningu Fréttablaðsins fyrir helgi að hann vonaðist til þess að allir kaflar yrðu opnaðir fyrir árslok. - þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×