Innlent

Fjölþjóðlegt teymi nýtir rekavið til vísindarannsókna

Svavar Hávarðsson skrifar
Reki þótti um aldir mikil búbót á Íslandi:
Reki þótti um aldir mikil búbót á Íslandi: vísir/pjetur
Vísindamenn frá tíu löndum í Evrópu og Norður-Ameríku hyggjast taka saman höndum um að efla alþjóðlegar rannsóknir á rekaviði. Rekaviður er meðal annars gagnabanki um loftslag norðurslóða sem gerir kleift að endurgera veðurfarsgögn langt aftur í aldir.

Í þessu augnamiði fundaði stór hópur vísindamanna í höfuðstöðvum Skógræktar ríkisins að Mógilsá á dögunum, og ræddu hvernig tvinna má saman rannsóknir á umhverfi lands og sjávar. Saman kom vísindafólk á sviði trjá- og viðarfræði, loftslagssögu og fornvistfræði en einnig fornleifafræði, haffræði og aldursgreiningar með geislakolum. Öll þessi vísindasvið eiga snertifleti í norðurslóðarannsóknum.

Pétur Halldórsson, kynningarfulltrúi Skógræktar ríkisins, segir rekavið víða að finna, ekki bara liggjandi í fjörum heldur í gripum og mannvirkjum sem smíðuð hafa verið úr honum í gegnum árin.

Pétur Halldórsson
„Varðveittur rekaviður getur því verið mjög gamall og rannsóknir á honum geta gefið ýmsar gagnlegar upplýsingar um árferði á hverjum tíma, jafnvel hafstrauma, hafís og margt fleira. Rannsóknir á rekaviði gagnast ólíkum fræðasviðum. Meðal annars má nýta það sem rekaviðurinn segir okkur til að styðja við sagnfræðileg gögn og aðrar heimildir um liðinn tíma. Við getum til dæmis hugsað okkur að vísindafólk sem rannsakar menningarsögu þjóðanna í norðrinu geti nýtt sér það sem lesa má úr rekaviðnum ekki síður en náttúruvísindafólk sem skoðar sögu lífríkis eða sveiflur í náttúrufari,“ segir Pétur.

Á fundi vísindamannanna varð að samkomulagi að hópurinn myndi skrifa þverfaglega yfirlitsgrein um núverandi stöðu þessara mála og þau viðfangsefni sem blasa við á komandi árum á sviði rekaviðarrannsókna á norðurslóðum. Helsta hvatningin að þessum skrifum er hversu viðkvæmt norðrið er fyrir loftslagssveiflum. Sömuleiðis er þröskuldur í þessari vinnu hversu saga beinna mælinga er stutt á norðurslóðum. Þekkingu skortir á þeim sveiflum sem hafa orðið í aldanna rás á útbreiðslu hafíssins, hafstraumakerfum, sjávarhæð, útbreiðslu lífvera, flutningshraða innan Íshafsins og mikilvægi rekaviðar fyrir samfélög fólks í norðri, skrifar Pétur um fundinn.

Yfirlitið er hugsað til að forgangsraða vettvangsathugunum og rannsóknarverkefnum á komandi árum og koma rekaviði norðurslóða á framfæri sem fjölþættri gagnauppsprettu svo betur megi skilja eðlisþætti heimskautakerfanna í fortíð og nútíð.

Gluggi inn í fortíðina

  • Rekaviður á norðurslóðum tengir saman mismunandi rann­sóknar­svið á norðurslóðum
  • Hann er að­gengi­legur og fremur ódýr upplýsingabanki um umhverfið og gefur geysimikla möguleika sem enn eru vannýttir og þarfnast rannsókna
  • Með þverfaglegri samvinnu er hægt að vinna áreiðanlegri gögn um fortíðina og ná lengra aftur í tímann en fyrirliggjandi gögn úr mælitækjum leyfa
  • Rekaviðurinn sem berst til Íslands kemur frá skógum Síberíu. Rannsóknir frá árinu 1971 sýndu að rekaviðurinn berst um 400–1.000 kílómetra á ári og það tekur drumbana um 4 til 5 ár að reka til Íslandsstranda


Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×