Viðskipti innlent

Fjórðungur afla í heiminum veiddur eftir kerfi sem Íslendingar hönnuðu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Um það bil fjórðungur af öllum sjávarafla í heiminum er nú veiddur í fiskveiðistjórnunarkerfum að íslenskri fyrirmynd.

Þettta segir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, en hann var gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu.

„Við höfðum mjög gott fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi sem var öðrum þjóðum mikil fyrirmynd. Í heiminum í dag er um það bil 25 prósent af heimsaflanum veidd samkvæmt þessu kerfi sem við tókum ríkan þátt í að hanna og þróa. Ef Íslendingar vilja auka almenna velferð, velsæld og hagvöxt á Íslandi til framtíðar þá eru þeir að gera rangt með því að skaða þetta kerfi, skemma það eða breyta því á þann hátt sem núverandi stjórnarflokkar hafa lýst. Það er bara heimskulegt og það vinnur beinlínis gegn hagsmunum þeirra sem þeir segjast vera að vinna fyrir," segir Ragnar, en hann hefur verið í fararbroddi í rannsóknum á hagrænum áhrifum veiða og vinnslu og þýðingu sjávarútvegsins sem grunnatvinnuvegs í íslensku atvinnulífi.

Eins og fréttastofan hefur greint frá stóð sjávarklasinn, þ.e sjávarútvegurinn og þyrping fyrirtækja í kringum hann, undir 26 prósentum af landsframleiðslu Íslands á árinu 2010.

Unnið er að nýju frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ríkisstjórnin féll frá frumvarpi sem lagt var fram á síðasta ári í tíð Jóns Bjarnasonar og fól í sér grundvallar breytingar á núverandi kerfi.

Á myndskeiði úr Klinkinu hér fyrir ofan ræðir Ragnar Árnason breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Sjá má þáttinn í heild sinni hér.  thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×