Innlent

Fjórtán þúsund launþegar á leið í verkfall

Höskuldur Kári Schram skrifar
Um fjórtán þúsund félagsmenn í 35 verkalýðsfélögum hafa boðað verkfallsaðgerðir á næstu vikum og mánuðum. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir stefna í hörðustu átök á vinnumarkaði í áratugi.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins hófst í morgun og lýkur í lok þessa mánaðar. Drífa Snædal framkvæmdastjóri sambandsins segir allt benda til þess að verkfall verði samþykkt.

„Allar okkar mælingar og allir þeir fundir sem hafa verið haldnir bera það með sér að verkfall verði samþykkt,“ segir Drífa.

Í heild hafa 35 verkalýðsfélög boðað verkfallsaðgerðir á næstu vikum og munu aðgerðirnar hafa veruleg áhrif helstu stofnanir og vinnustaði samfélagsins.

Aðgerðirnar munu meðal annars hafa áhrif starfsemi Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, fiskvinnslustöðva, á sláturhús og kjötvinnslur, ræstingarfyrirtæki, ferðaþjónustu- og verktakafyrirtæki.

Á fimmtudag hefjast aðgerðir hjá félagsmönnum Rafiðnaðarsambandsins hjá Ríkisútvarpinu og standa með hléum til 23. apríl en þá hefst ótímabundið verkfall.

Sjöunda apríl hefjast svo verkfallsaðgerðir hjá nokkrum félögum innan BHM þar á meðal hjá geislafræðingum og hjá Ljósmæðrafélagi Íslands.

Þann 9. apríl leggja þrjú þúsund félagsmenn í átján aðildarfélögum niður störf eftir hádegi. Daginn eftir, eða 10. apríl, eiga svo verkfallsaðgerðir hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins að hefjast en þær ná til 10 þúsund félagsmanna.

Öll þessi félög hafa boðað tímabundnar eða ótímabundnar verkfallsaðgerðir út aprílmánuð og fram í maí. Drífa segir allt stefna í mikil átök á vinnumarkaði.

„Við höfum ekki boðað til svona aðgerða á almennum vinnumarkaði í áratugi. Svo er háskólasamfélagið farið af stað líka þannig að það eru harðir mánuðir framundan,“ segir Drífa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×