Innlent

Fleiri flugeldaslys undir áhrifum áfengis

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flugeldaslysum hefur fækkað mikið síðastliðinn áratug. Yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans segir aukna notkun á öryggisgleraugum og það að börn fikti minni í flugeldum en áður hafa þar mest að segja. Hann segir þó ástæðu til að minna á að áfengi og flugeldar fari ekki saman.

Um hver áramót leita alltaf nokkrir á bráðamóttöku Landspítalans vegna flugeldaslysa. „Þau slys sem við erum að sjá síðustu ár eru fyrst og fremst brunar. Menn eru að brenna sig á flugeldunum. Svo kemur því miður enn þá eitt og eitt slys sem tengist því að flugeldurinn springur á einhvern hátt sem hann á ekkert að gera. Þá er það oftast tengt því að menn séu að bogra yfir flugeldi sem þeir hafa kveikt í en hefur ekki farið almennilega af stað,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeilar Landspítalans.

Hann segir að dregið hafi úr flugeldaslysum síðustu ár. Þau hafi verið sjö í fyrra en fyrir tíu árum hafi þau verið í kringum 40. „Við erum að sjá það að fólk er að passa sig betur. Það er orðin miklu almennari notkun á öryggisgleraugum. Krakkar eru hættir mikið til að fikta í flugeldum og breyta þeim og þetta eru tveir stórir þættir sem hafa rosalega mikil áhrif á það að slysum hefur fækkað mikið,“ segir Jón Magnús.

Hann hvetur fólk til að fara varlega þegar kemur að flugeldum. „Það sem við viljum líka leggja mikla áherslu á það er það að áfengi og flugeldar fara illa saman. Við höfum séð að þó það hafi fækkað slysum tengdum flugeldum síðustu ár. Þá er hlutfall þeirra sem koma hérna með alvarlega áverkana, sem eru undir áhrifum áfengis, hefur aukist mikið,“ segir Jón Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×